Sigurjón
Sigurjón Ólafsson fæddist á Eyrarbakka árið 1908. Fyrstu tilsögn í myndlist hlaut hann hjá Ásgrími Jónssyni listmálara og síðar Einari Jónssyni myndhöggvara. Samhliða listnáminu lauk Sigurjón sveinsprófi í húsamálun frá Iðnskólanum í Reykjavík vorið 1927 og ári síðar sigldi hann til Kaupmannahafnar, þar sem hann hóf nám í Konunglegu Akademíunni hjá prófessor Utzon-Frank. Námið sóttist honum vel og haustið 1930 hlaut hann gullverðlaun Akademíunnar fyrir styttu af Verkamanni, (LSÓ 1017) sem nú er í eigu Listasafns Íslands. Sigurjón hlaut skjótan frama erlendis, og eftir námsdvöl í Rómaborg 1931−32 og lokapróf frá Akademíunni árið 1935 var hann talinn meðal efnilegustu myndhöggvara yngri kynslóðarinnar í Danmörku.

Verk Sigurjóns frá Danmerkurtímanum vekja enn forvitni og áhuga manna. Má þar nefna Saltfiskstöflun, styttur af Fótboltamönnum (1936−37), (LSÓ 247, LSÓ 004, LSÓ 005) auk abstraktverka eins og Maður og kona (1939) sem olli deilum á sínum tíma í Danmörku. Fyrir portrettið Móðir mín (1938) hlaut Sigurjón hin eftirsóttu Eckersberg-verðlaun. Afsteypa af því verki er til í ríkislistasöfnunum í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi og í Listasafni Íslands. Á árunum 1941−44 vann Sigurjón að stærsta verki sínu í Danmörku, tveimur granítstyttum fyrir ráðhústorg Vejleborgar, (LSÓ 1062, LSÓ 1063) sem í upphafi ollu miklum deilum, en í dag eru álitin snjöll og áhrifarík.

Þegar Sigurjón sneri heim að loknu stríði varð hann meðal brautryðjenda abstraktlistar á Íslandi. Auk þess var hann talinn einn helsti portrettlistamaður sinnar samtíðar. Á langri starfsævi var Sigurjóni falið að gera fjölda opinberra verka og í Reykjavík eru eftir hann á annan tug útilistaverka og veggskreytinga. Stærst verka hans er án efa lágmyndirnar á stöðvarhúsi Búrfellsvirkjunar sem hann vann á árunum 1966−69, en þekktari eru ef til vill Öndvegissúlurnar við Höfða, styttan af séra Friðrik við Lækjargötu, og Íslandsmerki á Hagatorgi.

Auk hinna hefðbundnu verkefna vann Sigurjón alltaf frjáls verk þar sem hugmyndaflug og tilraunir með efni og form fengu að ráða. Þannig eru allar steinmyndir hans frá 1946−56 frjáls verk og ekki gerð eftir pöntunum. Mörg þeirra eru nú í eigu safna og opinberra aðila.

Sigurjón vann í afar fjölbreyttan efnivið; leir, gifs, tré, málma, stein og steinsteypu. Síðustu ár ævinnar notaði hannnn oft tré eða rekavið í verk sín.

Sigurjón lést í Reykjavík í desember 1982.