Laugardaginn 3. og sunnudaginn 4. febrúar kl. 20:00
Tvennir tónleikar. |
|
Þura
Þura Sigurðardóttir söngkona ásamt söngvurunum
Berglindi Björku Jónasdóttur og Sigurði Helga Pálmasyni
bjóða upp á notalega tónlist við undirleik Láru
Bryndísar Eggertsdóttur píanóleikara, Hlífar
Sigurjónsdóttur fiðluleikara, Bjarna
Sveinbjörnssonar kontrabassaleikara og Péturs
Grétarssonar slagverksleikara.
Flutt verða verk sem spanna yfir hundrað
ár í sögu tónlistarinnar, allt frá Edward Elgar til
Braga Valdimars.
|
Þriðjudaginn 6. febrúar kl. 20:00 |
|
Saga saumuð á langan refil
Reynir Tómas Geirsson fyrrverandi prófessor og
yfirlæknir segir frá hinum fræga refli frá Bayeux,
sem saumaður var á elleftu öld. Refillinn er rúmlega
70 metra langur og myndefnið er eins konar myndasaga sem endar á
orrustunni við Hastings í Englandi árið 1066, þegar
innrásarlið frá Normandí réðst inn í
England.
|
Þriðjudaginn 13. febrúar kl. 20:00 |
|
Njálurefillinn
Sköpun hans í máli og myndum
Kristín Ragna Gunnarsdóttir,
teiknari og rithöfundur,
segir frá gerð Njálurefilsins sem hún hannaði og
teiknaði. Refillinn er rúmlega 90 metra langur
með teikningum sem byggja á Njálssögu og er saumaður
með refilsaumi í anda hins fræga Bayeux-refils. Hugmyndina
að Njálureflinum áttu þær Christina Bengtsson
og Gunnhildur Kristjánsdóttir og fjöldi manns tók
þátt í að sauma hann á Hvolsvelli.
|
Þriðjudaginn 20. febrúar kl. 20:00 |
Freyr, Hlíf, Martin og Þórdís Gerður |
Flautukvartettar Mozarts
Freyr Sigurjónsson flauta,
Hlíf Sigurjónsdóttir fiðla,
Martin Frewer víóla og
Þórdís Gerður Jónsdóttir selló.
Fluttir verða allir fjórir flautukvartettar
Mozarts, en þrjá þeirra samdi hann í Mannheim
veturinn 1777−78, og hinn fjórða áratug
síðar. Mannheim verkin samdi hann eftir pöntun
fyrir áhugamannakvartett og eru þeir ekki eins
margslungnir og mörg önnur verk hans, en engu að
síður yndisleg, hljómmikil, glettin
og krefjandi fyrir öll hljóðfærin.
|
Þriðjudaginn 27. febrúar kl. 20:00
|
|
Sigvaldi Kaldalóns
Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari og
Gissur Páll Gissurarson tenór.
Dagskrá í tali og tónum um eitt vinsælasta tónskáld
þjóðarinnar Sigvalda Kaldalóns.
Á tónleikunum verða flutt meðal annars perlur
Sigvalda; Þú eina hjartans, Svanasöngur á heiði,
Þótt þú langförull legðir og Ég lít í anda
liðna tíð. Einnig mun listafólkið flytja valda texta um hið
áhugaverða líf og listsköpun Sigvalda sem starfaði að
meginhluta sem læknir á landsbyggðinni um árabil.
|
Þriðjudaginn 19. mars kl. 20:00 |
|
Frá Svartárkoti til Huldu á Skútustöðum,
með viðkomu í Stafnsholti
Viðar Hreinsson
tengir saman alþjóðleg
umhverfishugvísindi og þjóðleg fræði
landsbyggðarinnar í spjalli um vegferð frá verkefninu
Svartárkot, menning −
náttúra sem hófst árið 2007, til hins nýstofnaða
náttúruhugvísindaseturs
Huldu sem starfrækt
er á Skútustöðum í Mývatnssveit. Spjallið verður
kryddað með sögum af Helga Jónssyni frá
Stafnsholti á
Fljótsheiði sem kalla má merkasta óþekkta höfund
íslenskra bókmennta.
|
Þriðjudaginn 26. mars kl. 20:00 |
|
Söngtónleikar
Sólrún Bragadóttir sópran og Jón Sigurðsson
píanóleikari.
Úrval sönglaga frá síðrómantíska
tímanum, meðal annars Ljóðaflokkur
ópus 90 eftir Jean Sibelius. Einnig sönglög eftir
Reynaldo Hahn, Henri Duparc, Hugo Wolf, Richard Strauss, Ernest Chausson
og Francis Poulenc.
|
Þriðjudaginn 9. apríl kl. 20:00 |
|
Duo Landon
Brot úr þriggja alda sögu fiðludúósins
Hlíf Sigurjónsdóttir og Martin Frewer fiðluleikarar.
Tvíleikur á fiðlu er rótgróin hefð
í mið-Evrópu en á sér ekki langa sögu
hérlendis. Flutt verða fiðludúó freftir Jean-Marie Leclair
og Charles Auguste de Bériot og íslensk fiðludúó eftir
Þorkel Sigurbjörnsson, Hildigunni
Rúnarsdóttur og Martin Frewer ásamt
nokkrum Þingeyskum fiðlulögum sem
Páll H. Jónsson skráði og Martin útsetti
fyrir fiðludúó.
|
Þriðjudaginn 16. apríl kl. 20:00
FRESTAÐ TIL HAUSTS
|
|
Páll Ísólfsson
Dr. Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari
fjallar um dr. Pál Ísólfsson orgelleikara og tónskáld, en
doktorsritgerð hennar frá City University of New York The Piano Works
of Páll Ísólfsson (1893-1974) − A Diverse Collection (2010) er tileinkuð
píanóverkum hans. Leikin verða verk eftir
tónskáldið meðal annars af völdum
hljóðritunum úr safni RÚV og mun Nína Margrét
segja frá rannsóknarvinnu sinni við þetta brautryðjandi
verkefni í íslenskri tónlistarsögu.
|
Tvennir aukatónleikar
Fimmtudaginn 18. apríl og föstudaginn 19. apríl kl. 20:00 |
|
Þura
Þura Sigurðardóttir söngkona ásamt gestum.
Íslensk og erlend lög sungin við íslenska söngtexta sem
allir kannast við og spanna hundrað ár í sögu
tónlistarinnar. Efnisskrá að mestu sú
sama og á tónleikum Þuru í febrúar, ögn vorlegri.
Fram koma: Þura, Berglind Björk Jónasdóttir, Sigurður
Helgi Pálmason, Lára Bryndís Eggertsdóttir,
Hlíf Sigurjónsdóttir, Bjarni
Sveinbjörnsson og Péturs Grétarsson.
|
Þriðjudaginn 23. apríl kl. 20:00 |
|
Einleikstónleikar
Ítalski píanóleikarinn Sebastiano Brusco leikur perlur úr
heimi klassísku tónlistarinnar,
Sónötu númer 12 eftir Mozart, Drei
Klavierstücke eftir Schubert og þrjú af
píanóverkum Chopins.
|
Þriðjudaginn 14. maí kl. 20:00
− Aflýst − |
|
Íslensk sönglög fyrr og síðar
Jón Þorsteinsson tenór
Sönglög Jóns Ásgeirssonar
Jón Þorsteinsson lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri
aðfaranótt laugardags 4. maí. Jarðarför hans verður
frá Ólafsfjarðarkirkju miðvikudaginn 22. maí
klukkan 14. Streymt verður frá útförinni og verður
streyminu varpað á sýningartjald í aðalsal
Listasafns Sigurjóns Ólafssonar. Við,
aðstandendur safnsins, bjóðum vinum hans og
aðstandendum að koma í Listasafnið á
Laugarnestanga og eiga saman stund þar sem við munum minnast
góðs vinar, stórkostlegs listamanns og leiðbeinanda
sem gaf svo mikið frá sér til samfélagsins.
Hlíf Sigurjónsdóttir
| |