Þriðjudaginn 2. júlí kl. 20:30 |
Freyr og Arnaldur |
Ómur úr suðri
Freyr Sigurjónsson flautuleikari og Arnaldur
Arnarson gítarleikari flytja suðræna tónlist.
Sónatína ópus 205 eftir Mario Castelnuovo-Tedesco,
Original Tänze eftir Franz Schubert, Musiques populaires
brésiliennes eftir Celso Machado og Suite Buenos Aires
eftir Máximo Diego Pujol.
|
Þriðjudaginn 9. júlí kl. 20:30 |
Einar og Alessandra |
Draumur, saumur og dans
Einar Jóhannesson klarínettuleikari og
Alessandra Pompili píanóleikari opna gluggann á
hinni rómantísku nítjándu öld með
draumkenndum verkum eftir hjónin Clöru og Robert
Schumann og samtímamann þeirra, Norbert
Burgmüller. Þá munu heyrast nýrri verk,
meðal annars Bútasaumur, glænýtt
verk eftir John Speight og verk eftir enska tónskáldið,
listmálarann og
rithöfundinn fjölgáfaða Thomas
Pitfield, sem hefur ekki verið flutt áður
hérlendis. Litríkur ungverskur dans
hnýtir svo lokahnútinn á tónleikana.
|
Þriðjudaginn 16. júlí kl. 20:30 |
Þórhildur, Emma og Sólrún |
Fuglasöngur og serenöður
Tríó Sól: Emma Garðarsdóttir og
Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir fiðluleikarar og
Þórhildur Magnúsdóttir víóluleikari.
Flutt verður verkið O3, sem Ingibjörg Ýr
Skarphéðinsdóttir samdi fyrir tríóið
og serenöður og sónötur eftir Zoltán Kodály,
Max Reger og Ludwig van Beethoven.
|
Þriðjudaginn 23. júlí kl. 20:30 |
Guðrún og Francisco |
Hún er vorið
Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzosópran
og Francisco Javier Jáuregui gítarleikari.
Titill tónleikanna vísar í samnefnt verk Hauks
Tómassonar við ljóð Matthíasar
Johannessen. Á efnisskrá eru íslensk og erlend
lög sem tengjast konum á einn eða annan hátt; samin af
konum, við ljóð eftir konur, um konur eða tileinkuð
þeim. Auk titilverksins má meðal annars heyra Vísur
Vatnsenda-Rósu eftir Jón Ásgeirsson, Maríukvæði
eftir Atla Heimi Sveinsson, Þökk sé þessu lífi eftir
Violetu Parra, Alfonsina y el mar eftir Ariel Ramírez, Madrid
eftir Ólöfu Arnalds
og Síðasti strætó fer korter í eitt eftir
flytjendurna við sonnettu eftir Kristján Þórð
Hrafnsson.
|
Þriðjudaginn 30. júlí kl. 20:30 |
Erla Dóra, Björk, Gróa Margrét og Eva Þyri |
Náttúra, ónáttúra
og yfirnáttúra
Erla Dóra Vogler mezzosópran, Björk
Níelsdóttir sópran, Gróa Margrét
Valdimarsdóttir fiðluleikari og Eva Þyri
Hilmarsdóttir píanóleikari.
Tónleikar með nýjum og eldri sönglögum
eftir
Þórunni Guðmundsdóttur söngkonu.
Verkunum má skipta í þrennt: Söngdúetta á
glettnislegum nótum við texta tónskáldsins
um sumar, ást og mat; einsöngslög við texta Hannesar
Hafstein um missi og afturgöngur og í þriðja lagi ný
kammer-sönglög fyrir söngrödd, víólu og
píanó, þar sem textarnir eru fengnir úr
þjóðsögum og munnmælum og ýmist
eignaðir útburðum, draugum, álfum,
tröllum eða mönnum, og einnig bregður fyrir
vísum úr sagnadönsum.
|
Þriðjudaginn 6. ágúst kl. 20:30 |
Svanur og Þórdís Gerður |
TRISTIA
Þórdís Gerður Jónsdóttir
sellóleikari og Svanur Vilbergsson gítarleikari. Flutt verður
verk Hafliða Hallgrímssonar Tristia sem var kveikjan að
samstarfi flytjenda. Einnig verður leikin Svíta af
vinsælum spánskum lögum eftir Manuel de Falla og
Sónata fyrir selló og gítar eftir Radamés Gnattali.
|
Þriðjudaginn 13. ágúst kl. 20:30 |
Hanna Dóra, Kjartan, Ármann og Sigurður
|
Chalumeaux−Tríóið og Hanna Dóra
Kjartan Óskarsson, Sigurður Ingvi Snorrason og
Ármann Helgason klarínettuleikarar ásamt
Hönnu Dóru Sturludóttur söngkonu.
Á verkefnaskrá tríósins eru tónverk sem
spanna alla sögu klarínettunnar og forvera hennar, allt
frá fyrsta áratugi átjándu aldar fram á okkar
daga. Á efnisskrá þessara tónleika eru meðal
annars verk eftir Christoph Graupner, Pál P. Pálsson,
Jónas Tómasson og Hjálmar H. Ragnarsson.
|
Tónlistarsjóður styrkir Sumartónleika LSÓ
Heimasíđa LSÓ |
|