Björn Ólafsson konsertmeistari í góðra vina hópi,
Rudolf Serkin t.v. og Adolf Busch t.h. Myndin sennilega tekin er þeir tengdafeðgar
heimsóttu Ísland 1946
Næsta sunnudag, 29. maí, verða leiknar upptökur með leik
Björns Ólafssonar konsertmeistara í Listasafni
Sigurjóns Ólafssonar og hefjast tónleikarnir
klukkan 17:00.
Listasafn Sigurjóns, í samvinnu við Safn-RÚV, flytur brot
úr hljóðmenningarsögu Íslendinga í
góðum hljómflutningstækjum í
hljómmiklum sal safnsins. Þann 15. maí voru endurteknir
tónleikar Adolf Busch frá 1945 og viku síðar voru fluttar
upptökur með leik Björns Ólafssonar á
tveimur einleiksverkum fyrir fiðlu eftir J.S. Bach, E-dúr
Partítuna og C-dúr Sónötuna. Í byrjun
tónleikanna flutti Hreinn Valdimarsson erindi um sögu
hljóðritunar á Íslandi.
Sunnudaginn 29. maí klukkan 17:00 verða fluttar upptökur
þar sem Björn flytur a-moll sónötuna, g-moll
sónötuna og d-moll partítuna eftir J.S. Bach og kynnir hann
verkin fyrir flutninginn.
Hvatinn af þessum uppákomum er meðvitundin um
nauðsyn þess að miðla sögunni, eða eins og Gylfi Þ.
Gíslason sagði í ræðu við opnun Norræna
Hússins í Reykjavík 1968. Þjóð sem
gleymir sögu sinni glatar sjálfri sér. Sá maður sem man
ekki uppruna sinn er aðeins hálfur maður.
Björn Ólafsson konsertmeistari fæddist 26. febrúar 1917.
Hann var meðal fyrstu nemenda Tónlistarskólans í
Reykjavík og einn þeirra fjögurra sem fyrstir voru
brautskráðir úr skólanum vorið 1934. Hann
stundaði framhaldsnám í Vínarborg og lauk
prófi þar vorið 1939 með þeim árangri
að hann var strax ráðinn sem fyrsti fiðluleikari að
Vínarfílharmoníunni sem þá
var undir stjórn Wilhelm Furtwänglers. Hann kom heim til
Íslands sumarið 1939 og ætlaði að standa stutt við, en
síðari heimsstyrjöldin hófst þá um haustið
og kom í veg fyrir að hann kæmist aftur til Vínar.
Björn réðst sem aðalfiðlukennari við
Tónlistarskólann í Reykjavík, varð yfirkennari
strengjadeildar skólans og stofnaði hljómsveit
Tónlistarskólans.
Þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands
var stofnuð árið 1950 varð hann fyrsti konsertmeistari
hljómsveitarinnar og hélt þeirri stöðu til 1972.
Árið 1942 kvæntist hann Kolbrúnu Jónasdóttur
og dvöldu þau mörg sumur hjá skyldfólki Kolbrúnar á
Halldórsstöðum í Laxárdal og undi Björn sér
hvergi betur en þar.
Björn Ólafsson var í framvarðarsveit þeirra
einstaklinga sem með þrotlausri vinnu sinni og hugsjónum náðu
að auðga menningarlíf vort svo að við urðum á
örskömmum tíma samkeppnishæf við aðrar
Evrópuþjóðir. Hann lést í Reykjavík 1984.
|
Ábyrgðarmaður fréttatilkynningar er Hlíf
Sigurjónsdóttir sími 863 6805
|
|