Adolf Busch (1891 − 1952) |
Johann Sebastian Bach (1685 − 1750) |
Björn Ólafsson (1917 − 1984) |
Bach − Busch − Björn
Listasafn Sigurjóns Ólafssonar býður, í samstarfi
við Safn RÚV, til Bach hátíðar í safninu á
Laugarnesi sunnudagana, 15., 22., og 29. maí 2022 klukkan 17:00.
Þá gefst áheyrendum kostur á að hlýða
á sjaldheyrðar upptökur með leik Björns Ólafssonar
konsertmeistara og þýska fiðlusnillingsins
Adolf Busch ásamt kammersveit. Upptökur þessar eru úr
fórum Ríkisútvarpsins og hefur Hreinn Valdimarsson
yfirfært þær á stafrænt form og hljóðhreinsað.
Hlýtt verður á upptökurnar úr hljóðkerfi
frá Stúdíó Sýrlandi. Hlíf Sigurjónsdóttir
kynnir.
Á fyrstu tónleikunum, 15. maí, voru
endurfluttir tónleikar sem haldnir voru í
Trípólí bíói fyrstu dagana í
september 1945, þar sem Adolf Busch lék einleik með
íslenskri kammersveit. Hlíf
Sigurjónsdóttir fjallði um áhrif
heimsóknar Adolf Busch til Íslands á Björn
Ólafsson og Hreinn Valdimarsson sagði frá
upptökutækni, afritun og samsetningu tónbrotanna.
Á síðari tónleikunum verða fluttar
hljóðritanir Björns Ólafssonar á fimm
fiðlueinleiksverkum eftir Johann Sebastian Bach sem
hljóðritaðar
voru í Útvarpshúsinu á
Skúlagötu á árunum 1959 − 1961. Einnig kynnir
Björn tónverkin:
Sunnudaginn 22. maí 2022 kl. 17:00
E − dúr partíta BWV 1006 |
|
Preludio • Loure • Gavotte en Rondeau • Minuet I
• Minuet II - Minuet I da capo • Bourrée • Gigue |
C − dúr sónata BWV 1005 |
|
Adagio • Fuga • Largo • Allegro assai |
|
|
Sunnudaginn 29. maí 2022 kl. 17:00
a − moll sónata BWV 1003 |
|
Grave • Fuga• Andante • Allegro |
g − moll sónata BWV 1001 |
|
Adagio • Fuga (Allegro) • Siciliana • Presto |
d − moll partíta BWV 1004 |
|
Allemanda • Corrente • Sarabanda • Giga • Ciaccona |
|
|
|
Hann hefur hina verklegu
tækni svo fullkomlega á valdi sínu, svo að leiknin er alveg
viðstöðulaus og afburða mikil, en hann skartar ekki með
því skrauti, sem mörgum fiðlusnillingum er gjarnt á
að tildra, oftast á kostnað tónskáldanna, en
sjálfum sér til framdráttar hjá
áhrifagjörnum áheyrendum, sem hættir við að meta
gljáann meira en dýptina. Að lokum vil ég taka það fram,
að það eru alkunn sannindi, að persónuleiki
listamannsins flýtur með í list hans, þannig að
mikill listamaður er ekki einungis galdrameistari á
sviði tækninnar, hann er einnig mikill persónuleiki
búinn góðum gáfum og mannkostum, því
að göfgin í listinni sprettur upp úr djúpi
sálarinnar og gæðum hjartans. Fyrir mér er Adolf Busch
fremsti túlkandi klassiskrar listar á sínu sviði fyrir
þessa eiginleika sína.
Þannig skrifar B.A. um fyrstu tónleika Adolf
Busch í Vísi 24. ágúst 1945
Adolf Busch fæddist í Þýskalandi 1891, nam og
útskrifaðist frá tónlistarskólanum
í Köln og fór þá til náms í
tónsmíðum í Bonn. Hann hafði hug á að helga sig alveg
tónsmíðum, enda fjölhæft tónskáld, en
árið 1912 tók hann boði um að fara til Vínarborgar sem
konsertmeistari. Þar starfaði hann næstu 6 árin en
tók þá stöðu við Ríkisháskólann í
Berlín. Árið 1922 sagði hann lausum öllum
embættum og kennslustörfum til að geta eingöngu
gefið sig að hjómleikum. Hann settist að í Darmstadt,
ásamt Rudolf Serkin píanóleikara, sem þá
var orðinn tendasonur hans.
Þó Adolf væri ekki af gyðingaættum og mjög
vinsæll í Þýskalandi taldi hann sig ekki geta með góðri
samvisku búið þar, vegna uppgangs nazista og flutti
fjölskyldan til Basel í Sviss árið 1927 og fékk
síðar svissneskt ríkisfang. Hann hélt þó áfram
að halda tónleika í Þýskalandi allt til 1. apríl 1933, en
þann dag hófu nazistar markvissa árás á
fyrirtæki gyðinga. Þá aflýsti hann öllum
tónleikum sínum í Þýskalandi. Tilraunir
Hitlers til að lokka hann til baka, þennan mesta þýska
fiðluleikara veraldar, báru ekki árangur.
Við upphaf heimsstyrjaldarinnar síðari flutti
Adolf Busch til Vermont í Bandaríkjunum og félagar
í Busch kvartettinum með honum.
Í Bandaríkjunum náði Busch aldrei að endurheimta
þá hylli sem hann hafði notið í Evrópu. Þarlendir
áheyrendur heilluðust af yngri og glæsilegri
listamönnum eins og Jascha Heifetz og fannst stíll Busch ef til vill
gamaldags.
Adolf Busch kom fyrst til Íslands í ágúst 1945 í boði
Tónlistarfélagsins í Reykjavík, vafalaust í
gegnum hina þýsku og austurrísku listamenn sem voru hér
þá. Hann hélt ferna tónleika í Reykjavík, tvenna
með Árna Kristjánssyni píanóleikara og þá
síðustu, sem hann varð að endurtaka vegna aðsóknar,
með Strengjasveit Tónlistarfélagsins.
Ríkisútvarpið
hljóðritaði þá tónleika á lakkplötur
og verða þeir endurfluttir í Listasafni Sigurjóns
15. maí. Tveimur árum síðar hélt
Tónlistarfélagið hátíð í
tilefni að því að 120 ár voru liðin frá
andláti Beethovens. Aðalgestir hátíðarinnar
voru Adolf Busch og strengjakvartett hans sem léku meðal annars alla
kvartetta Beethovens. Busch og tengdasonur hans, Rudolf Serkin
píanóleikari, tengdust Íslandi sterkum böndum og komu
nokkrum sinnum hingað. Adolf nefndi son sinn Nicholas Ragnar (1948 − 2005)
eftir Ragnari í Smára, eins tryggasta stuðningsmanni
íslenskrar menningar á liðinni öld. Hann bauð Birni
Ólafssyni að koma til sín vestur um haf og þáði Björn
það, frá ágúst 1947 til maí 1948.
Adolf Busch er minnst, annars vegar sem afburða fiðluleikara og
tónskálds, og hins vegar var hann talinn tákngerfingur
siðferðis á þrautatímum í Evrópu. Hann
var talsmaður hins sígilda þýska fiðluleiks og sem
leiðari Busch kvartettsins og annarra kammerhljómsveita,
lagði Busch áherslu á tónlistina fram yfir glæsileik
og sýndarmennsku. Titillinn á ævisögu hans eftir Tully Potter
sem kom út árið 2010 segir mikið um þennan listamann: Adolf Busch:
The Live of an honest Musician.
Björn Ólafsson konsertmeistari fæddist 26. febrúar 1917.
Hann var meðal fyrstu nemenda Tónlistarskólans í
Reykjavík og einn þeirra fjögurra sem fyrstir voru
brautskráðir úr skólanum vorið 1934. Hann
stundaði framhaldsnám í Vínarborg og lauk
prófi þar vorið 1939 með þeim árangri
að hann var strax ráðinn sem fyrsti fiðluleikari að
Vínarfílharmoníunni sem þá
var undir stjórn Wilhelm Furtwänglers. Hann kom heim til
Íslands sumarið 1939 og ætlaði að standa stutt við, en
síðari heimsstyrjöldin hófst þá um haustið
og kom í veg fyrir að hann kæmist aftur til Vínar.
Björn réðst sem aðalfiðlukennari við
Tónlistarskólann í Reykjavík, varð yfirkennari
strengjadeildar skólans og stofnaði hljómsveit
Tónlistarskólans.
Þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands
var stofnuð árið 1950 varð hann fyrsti konsertmeistari
hljómsveitarinnar og hélt þeirri stöðu til 1972.
Árið 1942 kvæntist hann Kolbrúnu Jónasdóttur
og dvöldu þau mörg sumur hjá skyldfólki Kolbrúnar á
Halldórsstöðum í Laxárdal og undi Björn sér
hvergi betur en þar.
Björn Ólafsson var í framvarðarsveit þeirra
einstaklinga sem með þrotlausri vinnu sinni og hugsjónum náðu
að auðga menningarlíf vort svo að við urðum á
örskömmum tíma samkeppnishæf við aðrar
Evrópuþjóðir. Hann lést í Reykjavík 1984.
Johann Sebastian Bach fæddist 1685 inn í þekkta
tónlistarfjölskyldu í Eisenach árið 1685.
Foreldrar hans létust báðir er hann var barn að aldri
og flutti hann þá til elsta bróður síns, sem var organisti
í nágrannabænum Ohrdruf, og stundaði þar
tónlistarnám.
Í upphafi ferils síns starfaði hann sem organisti og um
tíma einnig sem hirðhljóðfæraleikari, en var
ráðinn til hirðar Wilhelm Ernst greifa af Weimar árið 1708.
Sex árum síðar varð hann konsertmeistari við sömu hirð.
Árið 1717 yfirgaf hann Weimar og réðst til starfa að hirð
Leopolds prins af Anhalt-Cöthen til ársins 1723. Þaðan fór
hann til Leipzig og gegndi stöðu kantors við Tómasarkirkjuna
til dauðadags árið 1750.
Meðan Bach starfaði sem organisti í Weimar samdi hann
mörg orgelverk og var þekktur og viðurkenndur sem
orgelleikari. Í Cöthen hafði hann engum kirkjulegum
skyldum að gegna, en bar hins vegar ábyrgð á öllum
tónlistarflutningi við hirðina og samdi þá fjölda
verka fyrir hin ýmsu hljóðfæri. Í Leipzig skóp hann
bæði kirkjulega og veraldlega tónlist.
Árið 1720, meðan hann var í Cöthen, samdi hann sex
einleiksverk fyrir fiðlu, þrjár sónötur og
þrjár partítur. Hann byggir þau á ríkjandi
hefð þýsks fiðluskóla. Þær tilgátur
eru uppi að hann hafi samið þau sem æfingar líkt og
Paganini gerði síðar með Caprisur sínar. Ljóst er að
Bach hefur þekkt fiðluna mjög vel og með sínu frjóa
ímyndunarafli séð fyrir enn óuppgötvaða
möguleika hljóðfærisins. Hann lést 1750.
| |
|