|
Tónleikar í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar
22. nóvember 2022 kl. 20:00
Duo Landon, sem skipað er
Hlíf Sigurjónsdóttur
fiðluleikara og Martin Frewer víóluleikara flytja
Dúett fyrir fiðlu og víólu í G dúr eftir
W.A. Mozart,
Þrjá madrigala fyrir fiðlu og víólu eftir Bohuslav
Martinů og Passacaglia eftir G.F. Händel / Johan Halvorsen.
Hlíf Sigurjónsdóttir er fædd í Kaupmannahöfn en ólst upp í Reykjavík. Hún nam fiðluleik hjá Birni Ólafssyni konsertmeistara við Tónlistarskólann í Reykjavík og fór síðar til framhaldsnáms við Háskólana í Indiana og Toronto og Listaskólann í Banff í Klettafjöllum Kanada. Einnig nam hún hjá Gerald Beal fiðluleikara í New York borg. Á námsárum sínum kynntist hún og vann með mörgum merkustu tónlistarmönnum tuttugustu aldarinnar, þar á meðal William Primrose, Zoltan Szekely, György Sebök, Rucciero Ricci og Igor Oistrach. Hlíf hefur haldið fjölda einleikstónleika og leikið með sinfóníuhljómsveitum og kammersveitum víða um Evrópu, í Bandaríkjunum og Kanada.
Haustið 2014 kom geisladiskurinn DIALOGUS út hjá MSR Classics í Bandaríkjunum með einleiksverkum í hennar flutningi, sem samin hafa verið sérstaklega fyrir hana. Maria Nockin, gagnrýnandi Fanfare Magazine, tilnefndi þann disk CD of the year 2015. Síðar endurútgaf sama útgáfufyrirtæki tvöfaldan geisladisk, frá árinu 2008, þar sem hún lék allar sónötur og partítur fyrir einleiksfiðlu eftir Johann Sebastian Bach. Hafa báðir þessir diskar hlotið mikið lof gagnrýnenda.
Hlíf er annt um íslenska menningu og sögu klassískrar tónlistar á Íslandi og sá til dæmis um útgáfu geisladisks 2020 með fiðluleik Björns Ólafssonar úr fórum RÚV. Í maí í ár stóð hún fyrir þrennum tónleikum þar sem leiknar voru gamlar sögulegar upptökur, sem að hennar undirlagi voru yfirfærðar og hljóðhreinsaðar af þessu tilefni. Hlíf hefur verið umsjónarmaður Sumartónleika Listasafns Sigurjóns frá upphafi.
Martin Frewer fæddist í bænum Dartford í úthverfi Lundúna og hóf að læra á píanó sex ára gamall í Dorset og nokkru síðar einnig á fiðlu. Hann stundaði nám í Oxford University, þaðan sem hann útskrifaðist með gráðu í stærðfræði, en samtímis sótti hann fiðlutíma hjá Yfrah Neaman. Eftir útskrift frá Oxford hélt hann áfram fiðlunámi í Guildhall School of Music & Drama í London hjá Yfrah Neaman og lærði þá einnig á víólu hjá Nannie Jaimeson. Martin hefur sótt tíma og tekið þátt í opnum kennslustundum hjá Igor Ozim, Martin Loveday, Eric Gruenberg, Almita og Roland Vamos, Peter Guth, Ake Lundeberg og Lin Yaoti.
Árið 1983 var Martin ráðinn til starfa hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og hefur búið hér síðan og unnið jöfnum höndum að hönnun tölvuhugbúnaðar og fiðluleik. Hann starfar nú sem hugbúnaðarverkfræðingur hjá Marel og leikur með sem lausamaður hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann er mjög laginn útsetjari og er stofnandi og leiðtogi kammersveitarinnar Spiccato.
|