|
Fréttatilkynning frá
Listasafni Sigurjóns Ólafssonar.
Ábyrgðarmaður:
Hlíf Sigurjónsdóttir s 863 6805
|
Í haust tók Listasafn Sigurjóns Ólafssonar upp þá
nýbreytni að standa fyrir menningarviðburðum − tónleikum,
flutningi hljóðrita og kynningum á sögulegu efni − í sal
safnsins á Laugarnesi. Hafa verið fest kaup á vönduðum
hljómflutningstækjum og myndvarpa í þeim tilgangi.
Stefnt er að tveimur lotum í vetur, annars vegar í október og
nóvember, og hins vegar á vormánuðum 2023.
Viðburðirnir verða í anda sumartónleikanna, á
þriðjudagskvöldum, um klukkustundar langir og boðið
er upp á kaffi í kaffistofu safnsins á eftir þar sem rabba má við
flytjendur. Þessir viðburðir munu þó hefjast klukkan 20:00,
í stað 20:30 eins og sumartónleikarnir gera.
Haustdagskráin hófst síðastliðið
þriðjudagskvöld með að leikin var upptaka af
tónleikum hins heimsþekkta fiðluleikara Adolf Busch í
Tripoli leikhúsinu í Reykjavík í september 1945.
Einnig fjallaði Hreinn Valdimarsson tæknimaður
Ríkisútvarpsins um upptökutækni þess
tíma og hvernig megi bjarga þessum upptökum frá eyðileggingu.
Næstu tvö þriðjudagskvöld verða helguð Maríu
Markan söngkonu og systkinum hennar.
|
Þriðjudaginn 25. október kl. 20:00 |
|
Markan systkinin
Dagskrá um Maríu Markan sópransöngkonu, skipt niður á tvö
kvöld. Á þessu fyrra kvöldi verður, auk Maríu, fjallað um þrjú
systkini hennar, sem öll voru mjög þekktir söngvarar á sinni
tíð. Elísabet var elst þeirra, hún
samdi lög, tók þátt í fjölmörgum merkum
tónlistarviðburðum og söng oft í útvarp.
Einar stundaði söngnám í Noregi og Þýskalandi
og söng inn á fjölmargar hljómplötur. Hann samdi hátt
í 50 lög og hefur eitt þeirra, Fyrir átta árum, notið mikilla
vinsælda. Sigurður söng einnig á hljómplötur og
í útvarp. Einar gaf út ljóðabækur og hélt
myndlistarsýningar. Dagskrárgerð er í höndum
Trausta Jónssonar og Hreins Valdimarssonar.
Síðari hluti þessarar dagskrár verður
að viku liðinni, 1. nóvember. |
Nánari upplýsingar um dagskrána gefur
Trausti Jónsson veðurfræðingur |
|