Fréttatilkynning frá
Listasafni Sigurjóns Ólafssonar.
Ábyrgðarmaður:
Hlíf Sigurjónsdóttir s 863 6805
Í haust og vetur tekur Listasafn Sigurjóns Ólafssonar upp þá
nýbreytni að standa fyrir menningarviðburðum − tónleikum,
flutningi hljóðrita og kynningum á sögulegu efni − í sal
safnsins á Laugarnesi. Hafa verið fest kaup á vönduðum
hljómflutningstækjum og myndvarpa í þeim tilgangi.
Stefnt er að tveimur lotum í vetur, annars vegar í október og
nóvember, og hins vegar á vormánuðum 2023.
Viðburðirnir verða í anda sumartónleikanna, á
þriðjudagskvöldum, um klukkustundar langir og boðið
er upp á kaffi í kaffistofu safnsins á eftir þar sem rabba má við
flytjendur. Þessir viðburðir munu þó hefjast klukkan 20:00,
í stað 20:30 eins og sumartónleikarnir gera.
|
Haustdagskráin hefst þriðjudagskvöldið 18. október klukkan 20:00 á
því að flutt verður hljóðritun frá
stórmerkilegum tónleikum sem haldnir voru í
Trípólí bíói fyrstu dagana í september 1945,
þar sem hinn heimsþekkti þýski fiðluleikari
Adolf Busch lék einleik með Strengjasveit
Tónlistarfjelagsins. Flutt voru verk eftir J.S. Bach:
Fiðlukonsertar í a moll og E dúr og Sónata
fyrir einleiksfiðlu í C dúr auk kafla úr Partítu
í d moll. Var þetta fyrsta heimsókn
Adolf Busch hingað, en hann myndaði sterk tengsl við Ísland og kom oft til
landsins og með honum aðrir frábærir tónlistarmenn
svo sem Rudolf Serkin og meðlimir Busch Strengjakvartettsins.
Ríkisútvarpið hljóðritaði tónleikana
á lakkplötur sem eru forgengilegar og hefur Hreinn Valdimarsson
tæknimaður Útvarpsins flutt efnið yfir á varanlegan
geymslumiðil. Eru Útvarpinu og Hreini færðar þakkir
fyrir að fá að flyja þetta efni.
Dagskrá þessi
var áður flutt í Listasafni Sigurjóns í maí í
vor, en fáir sáu
sér fært að mæta og hafa borist óskir um að hann verði
endurtekinn.
Hann hefur hina verklegu
tækni svo fullkomlega á valdi sínu, svo að leiknin er alveg
viðstöðulaus og afburða mikil, en hann skartar ekki með
því skrauti, sem mörgum fiðlusnillingum er gjarnt á
að tildra, oftast á kostnað tónskáldanna, en
sjálfum sér til framdráttar hjá
áhrifagjörnum áheyrendum, sem hættir við að meta
gljáann meira en dýptina. Að lokum vil ég taka það fram,
að það eru alkunn sannindi, að persónuleiki
listamannsins flýtur með í list hans, þannig að
mikill listamaður er ekki einungis galdrameistari á
sviði tækninnar, hann er einnig mikill persónuleiki
búinn góðum gáfum og mannkostum, því
að göfgin í listinni sprettur upp úr djúpi
sálarinnar og gæðum hjartans. Fyrir mér er Adolf Busch
fremsti túlkandi klassiskrar listar á sínu sviði fyrir
þessa eiginleika sína.
Þannig skrifar B.A. um fyrstu tónleika Adolf
Busch í Vísi 24. ágúst 1945
Björn Ólafsson konsertmeistari í góðra vina hópi,
Rudolf Serkin t.v. og Adolf Busch t.h. Myndin sennilega tekin er þeir tengdafeðgar
heimsóttu Ísland 1946
Adolf Busch: The Live of an honest Musician
Adolf Busch
fæddist í Þýskalandi 1891, nam og útskrifaðist
frá tónlistarskólanum í Köln og fór þá til Bonn
í tónsmíðanám. Hann hafði hug á að helga sig alveg
tónsmíðum, enda fjölhæft tónskáld, en árið 1912
tók hann boði um að fara til Vínarborgar sem konsertmeistari. Þar
starfaði hann næstu 6 árin en fékk þá stöðu við
Ríkisháskólann í Berlín. Árið 1922 sagði hann
lausum öllum embættum og kennslustörfum til að geta eingöngu
gefið sig að hjómleikahaldi. Hann settist að í Darmstadt, ásamt
Rudolf Serkin píanóleikara, sem þá var orðinn tendasonur
hans.
Þó Adolf væri ekki af gyðingaættum og mjög vinsæll
í Þýskalandi taldi hann sig ekki geta með góðri samvisku búið
þar, vegna uppgangs nazista og flutti fjölskyldan til Basel í Sviss árið
1927 og fékk síðar svissneskt ríkisfang. Hann hélt þó áfram
að halda tónleika í Þýskalandi allt til 1. apríl 1933, en þann dag
hófu nazistar markvissa árás á fyrirtæki gyðinga.
Þá aflýsti hann öllum tónleikum sínum þar í
landi. Tilraunir Hitlers til að lokka hann til baka, þennan mesta þýska
fiðluleikara veraldar, báru ekki árangur. Við upphaf
heimsstyrjaldarinnar síðari flutti Adolf Busch til Vermont í
Bandaríkjunum og félagar í Busch kvartettinum með
honum.
Í Bandaríkjunum náði Busch aldrei að endurheimta þá hylli
sem hann hafði notið í Evrópu. Þarlendir áheyrendur
heilluðust af yngri og glæsilegri listamönnum eins og Jascha Heifetz og
fannst stíll Busch ef til vill gamaldags.
Adolf Busch kom fyrst til Íslands í ágúst 1945 í boði
Tónlistarfjelagsins í Reykjavík, vafalaust í gegnum hina
þýsku og austurrísku listamenn sem hér voru þá. Hann hélt
ferna tónleika í Reykjavík, tvenna með Árna Kristjánssyni
píanóleikara og með kammersveit Tónlistarfjelagsins þann 1.
september sem hann varð að endurtaka daginn eftir vegna aðsóknar.
Ríkisútvarpið hljóðritaði þá tónleika
og verða þeir leiknir í vönduðum hljómtækjum í Listasafni Sigurjóns
Ólafssonar 18. október 2022. Tveimur árum síðar hélt
Tónlistarfjelagið hátíð í tilefni þess að
120 ár voru liðin frá andláti Beethovens. Aðalgestir
hátíðarinnar voru Adolf Busch og strengjakvartett hans sem
léku meðal annars alla strengjakvartetta Beethovens. Busch og tengdasonur
hans, Rudolf Serkin píanóleikari, tengdust Íslandi sterkum
böndum og komu nokkrum sinnum hingað. Adolf nefndi son sinn Nicholas Ragnar
(1948 − 2005) eftir Ragnari í Smára, eins tryggasta stuðningsmanns
íslenskrar menningar á liðinni öld. Adolf Busch bauð
Birni Ólafssyni að koma til sín vestur um haf og þáði Björn það,
var þar frá ágúst 1947 til maí 1948.
Adolf Bush er minnst, annars vegar sem afburða fiðluleikara og
tónskálds, og hins vegar var hann talinn tákngerfingur
siðferðis á þrautatímum í Evrópu. Hann var
talsmaður hins sígilda þýska fiðluleiks og sem leiðari
Busch kvartettsins og annarra kammerhljómsveita lagði Busch áherslu
á tónlistina fram yfir glæsileik og sýndarmennsku. Titillinn
á ævisögu hans eftir Tully Potter sem kom út árið 2010 segir
mikið um þennan listamann: Adolf Busch: The Live of an honest Musician.
|
|