Kammertónlist í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar
Listasafn Sigurjóns
Í framhaldi af tónleikum rússneska fiðlusnillingsins Mikhail Simonyan með Sinfóníuhljómsveit Íslands verður efnt til tónleika í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar föstudaginn 8. apríl kl. 20, þar sem Mikhail leikur kammertónlist með íslenskum hljóðfæraleikurum. Hugmyndina að þessum tónleikum átti fiðlu- og bogasmiðurinn Christophe Landon, en hann smíðaði fiðluna sem Simonyan leikur á, og verður hann einnig á tónleikunum. Christophe er mörgum íslenskum stengjaleikurum að góðu kunnur þar sem hann hefur reglulega heimsótt Ísland síðastliðin sex ár til að þjóna íslenskum hljóðfæraleikurum og þá haft aðstöðu í Listasafni Sigurjóns á Laugarnesi.
       
Með tónleikunum er fagnað mikilvægu samstarfi þessa heimsþekkta hljóðfærasmiðs og íslenskra hljóðfæraleikara og safns myndhöggvarans, þar sem tónlist hefur verið í hávegum höfð allt frá opnun þess 1988. Á tónleikunum verður tekið á móti frjálsum framlögum, sem renna óskert til styrktar sumartónleikaröð Listasafns Sigurjóns Ólafssonar á þessu ári.
        Á tónleikunum í Sigurjónssafni næstkomandi föstudagskvöld verður fluttur kvintett nr. 1 í A dúr ópus 18 eftir Felix Mendelssohn. Flytjendur eru fiðluleikararnir Mikhail Simonyan og Hlíf Sigurjónsdóttir, Sarah Buckley og Martin Frewer, sem leika á víólu og Sigurður Bjarki Gunnarsson sellóleikari. Öll munu þau leika á Landon hljóðfæri.
        Að tónleikunum loknum verður boðið upp á hressingu og gestir fá tækifæri til að spjalla við þá Mikhail Simonyan og Christophe Landon.
Mikhail Simonyan fiðluleikari er frá Novosibirsk í Síberíu og hóf fiðlunám fimm ára gamall. Árið 1999, þá þrettán ára gamall, lék hann einleik með hljómsveit ungra rússneskra og bandarískra hljóðfæraleikara í Lincoln Center í New York og hlaut mikið lof fyrir. Það sama ár lék hann fiðlukonsert eftir Szymanowski í St. Pétursborg. Mikhail hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir fiðluleik sinn og er enn af eftirsóttustu fiðluleikurum meðal yngri kynslóðarinnar.
    Mikhail Simonyan leikur á nýja fiðlu sem Christophe Landon smíðaði fyrir hann. Lék hann fyrst á hana Tjaikovski fiðlukonsertinn á þrennum tónleikum með New York Fílharmoníusveitinni í júní á liðnu ári.
Christophe Landon er fæddur og uppalinn í Frakklandi en býr í New York þar sem hann rekur verslun og vinnustofu. Hann rekur einnig vinnustofur og verslanir í Seoul, Shanghai, París og Berlín. Meðal viðskiptavina hans eru félagar úr New York Fílharmoníunnar og Berlínarfílharmoníunnar.
    
Árið 2005 fól hann fiðluleikurunum Hlíf Sigurjónsdóttur og Hjörleifi Valssyni, sem leika á fiðlur sem hann hefur smíðað, að leika 44 dúó eftir Béla Bartók inn á geisladisk, sem hann notaði til að kynna hljóðfæri sín.  Sá diskur hefur hlotið frábæra dóma hérlendis sem erlendis.
  Efnisskrá tónleikanna