Kynlegir kvistir
Í neðri sal safnsins eru sýnd þekkt öndvegisverk sem veita sýningargestunum góða innsýn í hin fjölbreyttu viðfangsefni listamannsins, svo og ólík vinnubrögð, sem réðust af þeim efniviði sem notaður var í hvert skipti. Þannig vann Sigurjón af sömu snilld hvort sem hann mótaði andlitsmynd í leir, hjó í stein eða tálgaði í tré. Síðustu tíu ár ævinnar vann Sigurjón fjölda verka í tré, bæði í rekavið, límtré og harðvið. Mörg þessara verka eru talin meðal lykilverka hans og hafa oft verið sýnd bæði hér á landi og erlendis. Aðrar trémyndir mætti flokka sem skemmtilegar hugmyndir og hugdettur, sem listamaðurinn útfærði í efni sem hendi var næst: trjáboli, greinar, rekavið. Það eru slíkar myndir sem nú má sjá á efri hæð safnsins undir heitinu Kynlegir kvistir. Hið prímitíviska myndmál er áberandi og má rekja það til fyrstu formtilrauna Sigurjóns á fjórða áratugnum sem var liður í leit framúrstefnulistamanna að nýju myndmáli. Það má eflaust flokka efniviðinn í mörgum myndanna undir heitinu objet trouvé, en þó bera þessi verk sterk höfundareinkenni listamannsins. |