Fréttatilkynning frá Listasafni Sigurjóns Ólafssonar 04.02.25


Tónleikar
í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar
þriðjudagskvöldið 11. febrúar klukkan 20:00


Tónskáldin Nino Rota − Barry Mills − Snorri Sigfús Birgisson − Bohuslav Martinů

Katrin Heymann flautu­leikari, Rob Campkin fiðlu­leik­ari og Evelina Ndlovu píanó­leikari frum­flytja „From Turmoil to Calm“ eftir Barry Mills, sem var samið sér­staklega fyrir þetta breska tríó, ásamt meistara­verk­um tutt­ug­ustu aldar­innar eftir Bohuslav Martinů og Nino Rota. Tón­leik­un­um lýkur með hug­leið­ing­um um ís­lensk þjóð­lög eftir Snorra Sig­fús Birgis­son sem ætl­að er að tengja bresk­ar ræt­ur flytj­end­anna við Ísland.

Katrin Hey­mann er fædd í Þýska­landi og stund­aði nám í þver­flautu­leik við Tón­listar­háskól­ann í Det­mold í Norður­rín-Vest­falíu og Lista­háskól­ann í Berl­ín, það­an sem hún út­skrif­að­ist ár­ið 2000. Síð­ar lauk hún BA-gráðu með láði í þýsk­um bók­mennt­um og kennslu­fræði frá Humb­oldt- há­skól­an­um í Berlín. Sam­­hliða því starf­aði hún sjálf­stætt sem flautu­leikari og flautu­kenn­ari við ýms­ar hljóm­sveit­ir, skóla og einka­aðila. Haust­ið 2003 flutti Kat­rin til Eng­lands og hélt þar áfram starfi sínu sem flautu­leik­ari og flautu­kenn­ari. Þar var hún með­al ann­ars stofn­með­lim­ur Sussex Flutes, hóps atvinnu­flautu­leik­ara sem ferð­að­ist um og tók upp tón­list í Sussex sýslu Bret­lands.
    Katrin flutti til Ís­lands haust­ið 2019 og hef­ur síð­an ver­ið virk í ís­lensku tón­listar­lífi, með sér­stak­an áhuga á kammer­tón­list. Hún hef­ur leik­ið fjölda tón­leika í kammer­tónleika­röð­um í Reykja­vík. Þá hefur hún ver­ið fyrsti flautu­leik­ari í Sinfonia­Nord og Sin­fóníu­hljóm­sveit Norður­lands. Hún kenn­ir flautu- og píanó­leik við Tónskólann í Reykja­vík og við Skóla­hljóm­sveit Reykja­vík­ur. Einn­ig syng­ur hún með Kór Breið­holts­kirkju.

Robert Campkin fiðlu­leik­ari hóf tón­listar­nám sitt hjá Kathar­ine Adams í Worth­ing á suður­strönd Eng­lands, en nam síð­ar við Guild­hall og Trinity Laban há­skól­ana í Lond­on. Hann bjó í Vín í eitt ár og tók ein­katíma hjá rúm­anska fiðlu­leik­ar­an­um Barna Kobori. All­an sinn náms­feril hefur hann einn­ig sótt tíma og ráð hjá Peter Poole í Sussex − og gerir enn. Hann undir­býr sig nú að taka LSRM (Licentiate of the Royal Schools of Music) gráðu undir hand­­leiðslu Stephanie Gonley í London.
    Robert hef­ur leikið á stöð­um á borð við Royal Albert Hall, Sym­phony Hall Birm­ing­ham og Hammer­smith Apol­lo, og komið fram með tón­listar­mönn­um eins og Boris Brovtsyn, Richard Durrant, Tom Gamble, Dom­in­ic Grier, Max­well Thorpe og Omar Puente − en hjá hon­um stund­aði Rob­ert djass­fiðlu­nám við Trinity Laban. Rob­ert starf­ar sem fiðlu­leik­ari hjá Music­ians of All Saints í Lewes, er leið­ari í Lanc­ing kammer­hljóm­sveit­inni og leik­ur með fílharmóníu­hljóms­veit­inni í Worth­ing.

Evelina Ndlovu nam píanó­leik hjá Patr­ic­ia Kava­nagh og Réa­monn Keary pró­fess­or við Kon­ung­lega tón­listar­­háskól­­ann í Dyfl­inni á Ír­landi og lauk þaðan BA gráðu í píanó­leik 2012. Þar lék hún með ýms­um kammer­hóp­um, var með­leik­ari írska tenór­söngv­ar­ans Phil Scott og kom fram víða þar­lendis, með­al annars í National Concert Hall og Ulster Hall í Bel­fast. Á náms­ár­um sínum hlaut Evelina fjölda verð­launa sem ein­leik­ari í hin­um virtu Feis Ceoil tón­listar­keppn­um.
    Evelina gegn­ir nú stöðu tón­listar­stjóra við Hand­cross Park Prep School í Vestur-Sussex á suður­strönd Bret­lands.

Robert og Evelina hafa leik­ið sam­an sem dúó um skeið og árið 2019 bætt­ist Katr­in í hóp­inn og mynd­uðu þau þann­ig tríó. Hafa þau lagt áherslu á að flytja verk eftir tutt­ug­ustu ald­ar tón­skáld eins og Bohu­slav Mart­inu, Nino Rota og Made­leine Dring. Þau hafa með­al ann­ars haldið tvenna tón­leika í Brigh­ton á suður­strönd Englands, en leika nú í fyrsta skipti saman á Íslandi.
Vakin er at­hygli á að söfn­un undirs­krifta und­ir á­skor­un til ráð­herra um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­mála um að frið­lýsa Laugar­nes sem bú­setu- og menn­ing­ar­landslag hef­ur ver­ið fram­lengd til 6. maí 2025.

Aðgangseyrir er 3.000 krónur og tekið er við greiðslukortum. Heildar­yfirlit vor­dagskrár safnsins má nálgast hér.
Listasafn Sigurjóns Ólafssonar • Laugarnestanga 70 • 105 Reykjavík • sími 553−2906 • LSO(at)LSO.is