Fréttatilkynning frá Listasafni Sigurjóns
Ólafssonar 22.01.25
Smellið hér til að skoða í vafra
Tvennir tónleikar
í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar
Hlíf Sigurjónsdóttir fiðluleikari og
Carl Philippe Gionet píanóleikari
Á fyrri tónleikunum, sem eru á
sunnudaginn 2. febrúar klukkan 20, flytja þau
létta salon tónlist með mörgum
þekktustu verkum nokkurra tónskálda fyrri alda.
Má þar nefna Arcangelo Corelli, Niccolo Paganini,
Henryk Wieniawski, Fritz Kreisler og Edward Elgar. Yngstur
tónskáldanna er Þórarinn Jónsson,
en hann var fæddur 1896.
Síðari tónleikarnir verða á
klassískum tónleikatíma Listasafnsins,
þriðjudagskvöldið 4. febrúar
klukkan 20:00. Þá flytja þau klassíska
efnisskrá; Fiðlusónötu í B dúr
eftir Wolfgang Amadeus Mozart, Sónötu í c moll eftir
Edvard Grieg og Fratres eftir Arvo Pärt.
Hlíf Sigurjónsdóttir nam fiðluleik hjá Birni
Ólafssyni konsertmeistara og fór síðar vestur
um haf til framhaldsnáms. Þar kynntist hún og vann
hún með mörgum merkustu
tónlistarmönnum sinnar tíðar, þar á
meðal William Primrose, Zoltan Szekely, György Sebök,
Rucciero Ricci og Igor Oistrach. Hlíf hefur haldið fjölda
einleikstónleika og leikið með
sinfóníuhljómsveitum og kammersveitum
víða um Evrópu, í Bandaríkjunum og Kanada.
Hlíf hefur leikið allar sónötur og partítur
fyrir einleiksfiðlu eftir J.S. Bach, meðal annars inn á geisladiska sem hlotið hafa
mikið lof, og haustið 2014 kom út geisladiskurinn
DIALOGUS þar sem hún flutti eingöngu
einleiksverk fyrir fiðlu, sem samin hafa verið fyrir hana.
Maria Nockin, gagnrýnandi Fanfare Magazine, tilnefndi
þann disk CD of the year 2015.
Hlíf er annt um íslenska menningu og sögu
klassískrar tónlistar á Íslandi og
sá til dæmis um útgáfu geisladisks 2020 með
upptökum af fiðluleik Björns Ólafssonar úr
fórum RÚV. Einnig hefur hún staðið fyrir
tónleikum þar sem leiknar voru gamlar sögulegar
upptökur sem voru, að hennar undirlagi,
yfirfærðar á varanlegt form og
hljóðhreinsaðar.
Carl Philippe Gionet er eftirsóttur einleikari og
meðleikari, en ekki síður sem leiðbeinandi
og kennari víða um Kanada og Evrópu. Hann lauk
doktorsprófi í píanóleik við
Université de Montréal undir leiðsögn Paul Stewart
og hefur hlotið sérhæfða þjálfun í
meðleik í Austurríki og Englandi. Hann hefur lagt sig
sérstaklega eftir menningararfleifð Akadíana
og árið 2013 stofnaði hann Musique sur mer en Acadie sem helgar
sig miðlun klassískrar tónlistar meðal
franska minnihlutans í Kanada. Síðan 2014 hefur hann
verið leiðbeinandi við Breno Italy International Music
Academy og Centre for Opera Studies and Appreciation í
Kanada.
Auk tónlistarinnar stundar Carl bæði
myndlist og ritsmíðar. Hann hefur haldið
sýningar á verkum sínum beggja vegna
Atlantshafsins og í haust sem leið sýndi hann verk sín
í Listasafni Sigurjóns undir nafninu
Laugarneshughrif. Fyrir bók sína Icare (Icarus), sem
hann einnig myndskreytti, hlaut hann tilnefningu til Kanadísku
Prix Antonine-Maillet - Acadie Vie verðlaunanna.
|