Fréttatilkynning frá Listasafni Sigurjóns
Ólafssonar 29.10.2024
Smellið hér til að skoða í vafra
Efnt er til Laugarnesvöku í Listasafni Sigurjóns
Ólafssonar sunnudaginn 3. nóvember 2024
klukkan 15 til stuðnings náttúru og
búsetulandslagi í Laugarnesi
Á Laugarnestanga, þeim litla skika sem eftir er óbyggður
af hinu forna stórbýli að Laugarnesi, er eina óspillta
fjaran á norðurströnd Reykjavíkurborgar, þar eru
svæði með fjölbreyttan náttúrulegan
gróður, þar er griðland fugla og þar eru menjar um
búsetu allt frá landnámi. Reynt hefur verið að seilast
inn á Tangann til að byggja á honum, eða leggja yfir hann vegi, en
velunnurum hefur hingað til tekist að afstýra
því. Nú er verið að þrengja að Tanganum með
landfyllingum og háhýsum úr norðri.
Á Laugarnesvöku er stefnt að stofnun félags sem
nefna mætti Laugarnesvinir til að efla þann stóra
hóp sem sýnt hefur áhuga á að Laugarnestangi
njóti verndar til framtíðar. Hafin verður
undirskriftasöfnun þar sem skorað er á
ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála að
Laugarnes verði friðlýst sem Búsetu − og
Menningarlandslag.
Í Verndaráætlun fyrir
minjasvæðið á Laugarnestanga sem samþykkt var
af borgarstjóra Reykjavíkur þann 25. ágúst 2016 segir:
Náttúrufarið á Laugarnesi gerir svæðið
einstakt í Reykjavík þar sem hægt er að horfa yfir
nesið og út í Viðey án truflunar frá
mannvirkjum nútímans. Mikilvægt er að halda
í þetta merkilega menningarlandslag, samspil
náttúru og minja, sem er hvergi að finna annars staðar
í Reykjavík. Ekki er að sjá að unnið hafi
verið eftir þessari samþykkt og mikilvægi
Laugarnestangans sem útivistarsvæðis hefur
aukist − og er enn að aukast − með hinni miklu
þéttingu byggðar, til dæmis á Kirkjusandi.
Ókeypis verður inn á safnið þennan dag,
og heitt kaffi á könnunni. Dagskrá stýra
Þuríður Sigurðardóttir og Hlíf
Sigurjónsdóttir.
|