Fréttatilkynning frá Listasafni Sigurjóns
Ólafssonar 17.04.24
Ítalski píanóleikarinn Sebastiano Brusco leikur á næstu
tónleikum Listasafns Sigurjóns Ólafssonar,
þriðjudaginn 23. apríl 2024 klukkan 20:00. Sebastiano,
sem er Íslendingum að góðu kunnur, leikur
perlur úr heimi klassísku tónlistarinnar,
Sónötu númer 12 eftir Mozart, Drei
Klavierstücke eftir Schubert og þrjú af
píanóverkum Chopins.
Sebastiano Brusco er fæddur í Róm og heillaðist
ungur að tónlist. Hann nam hjá Valentino Di Bella −
sem segja má að hafi uppgötvað hæfileika hans −
við Francesco Morlacchi Tónlistarháskólann
Perugia í Umbria og útskrifaðist þaðan með
ágætiseinkunn. Hann sótti námskeið hjá
ýmsum þekktum ítölskum
píanóleikurum og þriggja ára nám hans hjá
Ennio Pastorino við Tónlistarakademíuna í Umbria
á Ítalíu mótaði mjög tónstíl hans.
Þaðan útskrifaðist hann með besta vitnisburð.
Sebastiano hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir
píanóleik sinn, þar á meðal fyrstu verðlaun
bæði í Carlo Soliva International Competition og Gubbio
Festival International Competition.
Sebastiano hefur haldið tónleika í Kanada,
Bandaríkjunum, Mexíkó, Spáni, Frakklandi,
Þýskalandi, Rúmeníu, Póllandi,
Tyrklandi og arabísku furstadæmunum og á
árunum 2019 − 2023 fór hann þrisvar í
tónleikaferðir til Kína og lék þá
í Shanghai, Hong Kong, Guangzhou, Huangshan, Hangzhou,
Nanjing og Peking. Hér nær okkur hefur hann leikið
á Grieg hátíðinni í Noregi og nokkrum
sinnum hér á landi, meðal annars á
Sumartónleikum LSÓ og Myrkum Músíkdögum.
Hann hefur starfað með þekktum
hljóðfæraleikurum á borð við Vadim Brodsky
fiðluleikara, leikið með hljómsveitum og
kammersveitum eins og Bernini kvartettinum, I Solisti Veneti
í Feneyjum og Sinfóníuhljómsveitinni
í Mílanó, með stjórnendum eins og Riccardo
Chailly, Romano Gandolfi og Claudio Scimone. Útgáfurnar
Phoenix Classics, Da Vinci Records, AULICUS hafa gefið út
hljómdiska með flutningi hans.
Sebastiano er í góðu samstarfi við íslenska
tónlistarmenn. Heimsókn hans til Íslands nú er
til að hlýða á og halda masterklassanámskeið fyrir
langt komna píanónemendur.
|