Fréttatilkynning frá Listasafni Sigurjóns
Ólafssonar 02.04.24
Hlíf Sigurjónsdóttir og Martin Frewer leika Brot úr
þriggja alda sögu fiðludúósins
í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar
þriðjudagskvöldið 9. apríl
klukkan 20:00
Dúó Landon varð til þegar hinn þekkti
fiðlu- og bogasmiður Christophe Landon bað þau Hlíf
Sigurjónsdóttur og Hjörleif Valsson, sem
bæði leika á fiðlur sem hann hefur smíðað,
að hljóðrita 44 Dúó eftir Béla Bartók
inn á geisladisk til kynningar á hljóðfærum
sínum. Tónlistargagnrýnandi
Morgunblaðsins gaf þeim disk fimm stjörnur með
orðunum Þjóðleg innlifun á
heimsmælikvarða. Geisladiskurinn var
endurútgefinn hjá MSR-Classics í
Bandaríkjunum árið 2012.
Í framhaldi af góðum viðtökum
þess disks var hafin leit að tónverkum fyrir tvær
fiðlur eftir íslensk tónskáld, en þessi
hljóðfæraskipan er vinsæl á meginlandi
Evrópu og hafa mörg tónskáld samið
öndvegis verk fyrir hana. Aðeins fundust tónverk
þriggja tónskálda fyrir þessa skipan, þeirra
Þorkels Sigurbjörnssonar, Elíasar
Davíðssonar og Finns Torfa Stefánssonar.
Duo Landon, nú skipað Hlíf og Martin Frewer, bað
því þrjú íslensk tónskáld,
þau Hildigunni Rúnarsdóttur, Atla Heimi Sveinsson
og Jónas Tómasson að semja hvert sitt tónverk
og urðu þau góðfúslega við því.
Öll þessi tónverk voru hljóðrituð og
gefin út á geisladiskinum Icelandic
Violin Duos. Hlaut sá diskur einnig fimm stjörnur hjá
gagnrýnanda Morgunblaðins og CD Hotlist í
Bandaríkjunum valdi diskinn á CD HotList í
júlí 2013.
Síðan þá hefur dúóið
haldið fjölda tónleika og leikur Martin jöfnum
höndum á fiðlu og víólu. Efnisskrá
þessara tónleika teigir sig allt aftur til fyrri hluta
18. aldar, en elsta verkið er í síðbarrokk
stíl, Sónata í D dúr eftir Jean Marie
Leclair og eftir annað miðevrópskt verk,
Concertant Duo eftir Charles Auguste de Beriot verða
leikin íslensk verk eftir Þorkel
Sigurbjörnsson, Hildigunni Rúnarsdóttur
og Martin Frewer. Einnig verða leikin nokkur af
þeim þingeysku fiðlulögum sem Páll H.
Jónsson skráði og Martin hefur
útsett fyrir tvær fiðlur.
Hlíf Sigurjónsdóttir er fædd í Kaupmannahöfn
en ólst upp í Reykjavík. Hún nam fiðluleik hjá
Birni Ólafssyni konsertmeistara við
Tónlistarskólann í Reykjavík og fór
síðar til framhaldsnáms við Háskólana
í Indiana og Toronto og Listaskólann í Banff í
Klettafjöllum Kanada. Einnig nam hún hjá Gerald Beal
fiðluleikara í New York borg. Á námsárum
sínum kynntist hún og vann með mörgum merkustu
tónlistarmönnum tuttugustu aldarinnar, þar
á meðal William Primrose, Zoltan Szekely, György Sebök,
Rucciero Ricci og Igor Oistrach. Hlíf hefur haldið fjölda
einleikstónleika og leikið með
sinfóníuhljómsveitum og kammersveitum
víða um Evrópu, í Bandaríkjunum og Kanada.
Haustið 2014 kom geisladiskurinn DIALOGUS út
hjá MSR Classics í Bandaríkjunum með
einleiksverkum í hennar flutningi, sem samin hafa verið
sérstaklega fyrir hana. Maria Nockin, gagnrýnandi
Fanfare Magazine, tilnefndi þann disk CD of the year 2015.
Síðar endurútgaf sama útgáfufyrirtæki
tvöfaldan geisladisk, frá árinu 2008, þar sem hún
lék allar sónötur og partítur fyrir
einleiksfiðlu eftir Johann Sebastian Bach. Hafa báðir þessir
diskar hlotið mikið lof gagnrýnenda.
Hlíf er annt um íslenska menningu og sögu
klassískrar tónlistar á Íslandi og sá
til dæmis um útgáfu geisladisks 2020 með fiðluleik
Björns Ólafssonar úr fórum RÚV og hefur
staðið fyrir tónleikum þar sem leiknar voru gamlar
sögulegar upptökur, sem að hennar undirlagi voru
yfirfærðar og hljóðhreinsaðar af þessu
tilefni. Hlíf hefur verið umsjónarmaður
Sumartónleika Listasafns Sigurjóns frá upphafi.
Martin Frewer fæddist í bænum Dartford í
úthverfi Lundúna og hóf að læra á
píanó sex ára gamall í Dorset og nokkru síðar einnig
á fiðlu. Hann stundaði nám í Oxford University,
þaðan sem hann útskrifaðist með gráðu
í stærðfræði, en samtímis sótti hann
fiðlutíma hjá Yfrah Neaman. Eftir útskrift
frá Oxford hélt hann áfram fiðlunámi í
Guildhall School of Music & Drama í London hjá Yfrah Neaman
og lærði þá einnig á víólu hjá Nannie
Jaimeson. Martin hefur sótt tíma og tekið þátt í
opnum kennslustundum hjá Igor Ozim, Martin Loveday, Eric Gruenberg, Almita
og Roland Vamos, Peter Guth, Ake Lundeberg og Lin Yaoti.
Árið 1983 var Martin ráðinn til starfa hjá
Sinfóníuhljómsveit Íslands og hefur
búið hér síðan og unnið jöfnum höndum
að hönnun tölvuhugbúnaðar og fiðluleik.
Hann starfar nú sem hugbúnaðarverkfræðingur
hjá Marel og leikur með sem lausamaður hjá
Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann er mjög
laginn útsetjari og er stofnandi og leiðtogi
kammersveitarinnar Spiccato.
|