Fréttatilkynning frá Listasafni Sigurjóns
Ólafssonar 20.03.24
Söngtónleikar
Rómantík í Listasafni Sigurjóns þriðjudagskvöldið
26. mars kl. 20:00
Sólrún Bragadóttir sópran og Jón
Sigurðsson píanó
Á næstu þriðjudagstónleikum í
Listasafni Sigurjóns Ólafssonar flytja þau
Sólrún Bragadóttir sópransöngkona og
Jón Sigurðsson píanóleikari úrval sönglaga sem
tengjast tónmáli síðrómantíska tímans.
Má þar nefna Sex söngva eftir Jean Sibelius við ljóð Johans Runeberg
og þrjú sönglög eftir Hugo Wolf. Einnig flytja þau verk eftir Reynaldo
Hahn, Henri Duparc, Richard Strauss, Ernest Chausson og Francis Poulenc.
Verk þessi sýna sterkar tilfinningar og skarpar
andstæður og draga fram, ýmist djúpan trega eða leikandi
gleði. Fjölbreytt efnistök á svipuðum
viðfangsefnum sýnir vel hversu ríkulegur
sönglagaarfurinn er.
Að loknu námi hérlendis lauk
Sólrún Bragadóttir
meistaragráðu í einsöng og kennslu
frá tónlistarháskólanum í
Bloomington í Indiana. Meðal kennara hennar þar var
hin þekkta rúmenska söngkona Virginia Zeani.
Sólrún hefur starfað við helstu óperu- og
leikhús í Þýskalandi, til dæmis í
Kaiserlautern, Hannover, Düsseldorf,
Mannheim, München, Karlsruhe, Kiel, Kassel, Heidelberg og einnig í Belfast,
Avignon, Liége, Bern, Palm Beach, Tsuyama í Japan og víðar. Meðal hlutverka
hennar má nefna Mimi í La Bohème, Suor Angelica í samnefndri óperu,
Desdemona í Otello, Gilda í Rigoletto, Elísabet í Don Carlo,
Greifafrúna í Brúðkaupi Fígarós, Pamínu
í Töfraflautunni og Fiordiligi í Così fan tutte. Þá
hefur hún einnig oft komið fram sem einsöngvari með
hljómsveitum, sungið ljóðatónlist, óratoríur
og Vínartónlist.
Haustið 2022 flutti Sólrún heim til Íslands eftir langa dvöl
erlendis og kemur fram sem klassískur söngvari með
fjölbreyttum efniviði, en starfar einnig sem raddþjálfari fyrir
kóra og einsöngvara, þerapisti og reikimeistari.
Sólrún er reikimeistari og þerapisti í
aðferð sem kallast Joyful Evolution. Kennsla hennar er í formi
námskeiða og einnig einstaklingsmiðuð með áherslu
á heildrænar þarfir nemanda. Kennslan er hugsuð fyrir alla,
laglausa sem lagvissa. Þá hefur hún þróað ferli sem hún
kallar Söngheilun og byggist á djúpri hugleiðslu og söngspuna,
jafnvel án undirleiks þar sem engin er dagskráin heldur valið
á staðnum og ýmist sungið án orða, í spuna eða heil lög
af ýmsu tagi. Sólrún býður upp á sérstaka
raddþjálfun sem hún kallar Sálarflæðissöng,
eða -tón, sem byggir ekki eingöngu á raddtækni og
áralangri reynslu á sviði, heldur einnig á vinnu með heilun
raddarinnar.
Jón Sigurðsson píanóleikari stundaði nám við
Tónlistarskólann í Reykjavík, Söngskóla
Sigurðar Demetz og Arizona State University í
Bandaríkjunum. Einnig hefur hann kynnt sér Funktionale Methode.
Helstu kennarar hans hafa verið Helga Laxness, Halldór Haraldsson, Erika Haase,
Gerrit Schuil og Caio Pagano. Hann hefur einnig tekið þátt í opnum
kennslustundum hjá Ruth Slenczynska, Edith-Picht Axenfeld og Roger Woodward.
Á undanförnum árum hefur Jón leikið víða, bæði
á Íslandi og víðar í Evrópu, og einnig í
Bandaríkjunum. Þá hefur hann flutt ýmiss konar
tónlist, en þó hafa rómantísk og
nútímaverk alltaf skipað stóran sess hjá honum.
Jón heldur einleikstónleika reglulega, hefur
leikið píanókonserta eftir Beethoven og Mozart og komfram með
kammersveitum og fjölmörgum hljóðfæraleikurum
og söngvurum. Jón hefur leikið inn á þrjá geisladiska sem
gefnir voru út hjá Polarfonia Classics. Á þeim er að finna verk,
meðal annars eftir Scriabin og Barber og sónötur eftir Strauss,
Schumann og Mozart.
|