Fréttatilkynning frá Listasafni Sigurjóns
Ólafssonar 12.03.24
Frá Svartárkoti til Huldu á
Skútustöðum með viðkomu í
Stafnsholti Viðar Hreinsson
bókmenntafræðingur fjallar um umhverfishugvísindi
og þjóðleg fræði í Listasafni Sigurjóns
Ólafssonar næstkomandi þriðjudagskvöld,
19. mars 2024 kl. 20:00
Í Suður-Þingeyjarsýslu hefur verið öflugt
menningarlíf allt frá miðri 19. öld og er svo enn í dag.
Rannsóknarsetrið Svartárkot,
menning − náttúra grasrótarsetur í
heimabyggð hóf starfsemi í Bárðardal árið
2007 og hefur staðið að rannsóknum og haldið mörg
alþjóðleg námskeið síðan.
Menningarfélagið Gjallandi var
stofnað í Mývatnssveit árið 2014 og hefur
staðið fyrir bókmenntakvöldum,
myndlistarsýningum og fleiru slíku. Sumarið 2021 var
náttúruhugvísindasetrið
HULDA sett á fót sem
samstarfsvettvangur vegna stofnunar nýs
rannsóknarseturs Háskóla Íslands í
Þingeyjarsveit. Að baki HULDU standa Háskóli
Íslands og Svartárkotssetrið í samstarfi við
Þingeyjarsveit og starfsstöð hennar er á
Skútustöðum í Mývatnssveit.
Í erindi sínu mun Viðar, sem er einn stofnenda og helsti
fræðimaður Svartárkotssetursins, fjalla um
Svartárkots- og Hulduverkefnin og tengja saman alþjóðleg
umhverfishugvísindi og þjóðleg fræði
landsbyggðarinnar. Spjallið verður kryddað með
sögum af Helga Jónssyni frá
Stafnsholti á
Fljótsheiði sem kalla má merkasta óþekkta höfund
íslenskra bókmennta.
Viðar Hreinsson (f. 1956) er sérfræðingur í
umhverfishugvísindum við Náttúruminjasafn
Íslands og stundar rannsóknir á náttúruskyni,
birtingarmyndum náttúru og menningarlegri fjölbreytni
í íslenskum bókmenntum fyrri alda. Hann lauk BA prófi í
íslensku frá Háskóla Íslands 1980 og mag. art. prófi
í bókmenntafræði frá
Kaupmannahafnarháskóla árið 1989. Hann kenndi við
framhaldsskóla í tvö ár og í tvö ár við
Manitobaháskóla en var síðan sjálfstætt starfandi
fræðimaður um langt árabil, lengst af við
ReykjavíkurAkademíuna og var þar einnig
framkvæmdastjóri á árunum 2005 til 2010.
Árið 2005 hafði hann frumkvæði að verkefninu
Svartárkot, menning − náttúra og hefur unnið að
því síðan.
Viðar ritstýrði rómuðum enskum
þýðingum Íslendingasagna, hefur lengi unnið
að rannsóknum á íslenskri bókmennta- og
menningarsögu og birt fjölda fræðigreina á
Íslandi og erlendis og ritað nokkrar ævisögur.
Ævisaga Stephans G. Stephanssonar, sem einnig er til í enskri
gerð, hlaut tilnefningar og verðlaun á Íslandi og
vestanhafs. Bók um Jón Guðmundsson lærða (1574 − 1658),
Jón lærði og náttúrur náttúrunnar,
sem kom út 2016, er jafnt ævisaga, hugmyndasaga, vísindasaga og
aldarfarslýsing. Hún var tilnefnd til Íslensku
bókmenntaverðlaunanna og hlaut Viðurkenningu
Hagþenkis 2016. Hann er nú að ljúka ritun bókar um
náttúrusýn í íslenskri sagnalist frá
landnámi til siðaskipta.
Viðar hefur verið virkur í baráttu um náttúruvernd í áratugi.
|