Fréttatilkynning frá Listasafni Sigurjóns
Ólafssonar 20.02.24
Sigvaldi Kaldalóns
Dagskrá í tali og tónum í Listasafni Sigurjóns
Ólafssonar þriðjudagskvöldið 27.
febrúar 2024 klukkan 20:00
Nína Margrét Grímsdóttir og
Gissur Páll Gissurarson
Þriðjudaginn 27. febrúar næstkomandi kl. 20:00 munu þau
Gissur Páll Gissurarson tenórsöngvari og Nína
Margrét Grímsdóttir píanóleikari flytja
tónleikadagskrá helgaða Sigvalda Kaldalóns og
sönglögum hans.
Sigvaldi Kaldalóns fæddist í Reykjavík 1881. Fyrstu sporin í tónlist tók hann hjá Jónasi Helgasyni dómkirkjuorganista, sem þá kenndi söng í barnaskólanum í Reykjavík. Jónas notaði fiðlu við kennsluna og kenndi börnunum að syngja eftir nótum. Á námsárum sínum í Reykjavík naut Sigvaldi leiðsagnar í tónsmíðum og harmóníumleik hjá Brynjólfi Þorlákssyni dómorganista og síðar tónskáldinu Sigfúsi Einarssyni.
Sigvaldi hefur sagt svo frá að þá hafi tónlistin gripið hann svo sterkum tökum, að minnstu munaði að hann gæfi sig henni alveg á vald. Í hrifningu þessara ára byrjaði hann að semja sönglög og eru langflestar tónsmíðar hans sönglög eða um 320 lög. Sigvaldi mun alltaf hafa séð eftir að hafa ekki menntað sig fremur í tónsmíðafræðunum til að geta helgað sig stærri verkum.
Sigvaldi útskrifaðist úr Læknaskólanum 1908 og hélt þá til framhaldsnáms í Kaupmannahöfn. Árið 1910 var hann ráðinn héraðslæknir í Nauteyrarhéraði við Ísafjarðardjúp og það var einmitt meðan hann var læknir í Djúpi, að hann samdi mörg sín bestu sönglög. Árið 1916 kom út fyrsta sönglagaheft hans, 7 sönglög. Í því eru meðal annars lögin: Þú eina hjartans yndið mitt, Sofðu, sofðu góði og Á Sprengisandi. Árið 1917 komu út 3 sönglög, eitt þeirra er Alfaðir ræður, og árið 1918 komu út 10 sönglög; eitt af þeim er Heimir. Þessi þrjú sönglagahefti seldust upp á skömmum tíma og lögðu grundvöllinn að frægð hans sem tónskálds.
Fá tónskáld eiga jafn mörg þekkt sönglög og Sigvaldi Kaldalóns, en þau lög skipta tugum sem þjóðin hefur hummað með sér, sungið hástöfum eða heyrt í margvíslegum útgáfum og útsetningum, enda eiga þau það sammerkt að hafa verið gefin út á plötum með mörgum flytjendum. Sönglög eins og Á Sprengisandi og Sofðu unga ástin mín hafa til dæmis líklega komið út í eitthvað á annað hundrað útgáfum hvort um sig og önnur þekkt lög hans eins og Ég lít í anda liðna tíð, Suðurnesjamenn, Svanurinn minn syngur, Hamraborgin og Nóttin var sú ágæt ein hafa einnig komið út í ótal útgáfum á plötum. Það er því óhætt að fullyrða að Sigvaldi Kaldalóns sé eitt ástsælasta tónskáld Íslendinga.
Sigvaldi Kaldalóns lést í Reykjavík 28. júlí 1946, eftir langvarandi veikindi, 65 ára gamall.
Gissur Páll Gissurarson tenórsöngvari hóf söngferil sinn 11 ára gamall í titilhlutverki Oliver Twist eftir Charles Dickens í Þjóðleikhúsinu. Gissur Páll hóf formlegt söngnám árið 1997 við Söngskólann í Reykjavík undir handleiðslu Magnúsar Jónssonar. Árið 2001 hóf Gissur Páll nám við Conservatorio G.B. Martini í Bologna hjá Wilma Vernocchi. Að loknu námi þar lærði Gissur Páll hjá Kristjáni Jóhannssyni.
Gissur Páll steig sín fyrstu skref sem einsöngvari á óperusviðinu árið 2003, og hefur síðan þá sungið fjölda hlutverka og tónleika. Hann hefur tekið þátt í söngvarakeppnum í tvígang og unnið til verðlauna í bæði skiptin. Hann hlaut þriðju verðlaun í alþjóðlegu söngvarakeppninni Flaviano Labņ árið 2005 og önnur verðlaun í alþjóðlegu söngvarakeppninni í Brescia árið 2006 en þar hlaut hann einnig sérstök verðlaun gagnrýnenda. Gissur Páll hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir hlutverk Rodolfo í La bohème hjá Íslensku óperunni árið 2012. Gissur Páll hefur komið víða fram, til dæmis í Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi, Ítalíu, Japan og Bandaríkjunum svo eitthvað sé nefnt, og hefur gert fjölmargar hljóðritanir, meðal annars með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Dr. Nína Margrét Grímsdóttir er í fremstu röð klassískra píanóleikara landsins. Hún lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, LGSM prófi frá Guildhall School of Music and Drama, meistaraprófi frá City University í London, Professional Studies Diploma frá Mannes College of Music í New York og doktorsprófi í píanóleik frá City University of New York. Hún hefur komið fram á Íslandi, víðar í Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada, Japan og Kína sem einleikari með hljómsveitum og í kammertónlist. Hún hefur hljóðritað fimm geisladiska fyrir Naxos, BIS, Acte Préalable og Skref sem allir hafa hlotið frábæra dóma í Gramophone Awards Issue, BBC Music Magazine, Glasgow Herald, Crescendo-Magazine, Xían Evening News og High Fidelity.
Nína Margrét er deildarstjóri framhaldsdeildar Tónskóla Sigursveins og kennir einnig píanóleik við Tónlistarskóla Kópavogs. Hún hefur enn fremur kennt við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskólann í Reykjavík og verið gestaprófessor við University of Agder og University of Karlstad á vegum Erasmus og Nordplus og hafa píanónemendur hennar unnið til fjölda verðlauna í innlendum og alþjóðlegum píanókeppnum.
|