Fréttatilkynning frá Listasafni Sigurjóns
Ólafssonar 09.02.24
Smellið hér til að skoða í vafra −
Ná í textaskjal
Flautukvartettar Mozarts
í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar þriðjudaginn
20. febrúar 2024 kl. 20:00
Freyr Sigurjónsson flauta,
Hlíf Sigurjónsdóttir fiðla,
Martin Frewer víóla og
Þórdís Gerður Jónsdóttir selló.
Fluttir verða allir fjórir flautukvartettar
Mozarts, en þrjá þeirra samdi hann í Mannheim
veturinn 1777−78, og hinn fjórða áratug
síðar. Mannheim verkin samdi hann eftir pöntun
fyrir áhugamannakvartett og eru þeir ekki eins
margslungnir og mörg önnur verk hans, en engu að
síður yndisleg, hljómmikil, glettin
og krefjandi fyrir öll hljóðfærin.
Freyr Sigurjónsson flautuleikari lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og stundaði framhaldsnám við Royal Northern College of Music (RNCM) í Manchester. Meðal leiðbeinenda hans voru Trevor Wye, William Bennett og Patricia Morris. Að loknu diplomaprófi frá RNCM 1982 var hann ráðinn fyrsti flautuleikari Sinfóníuhljómsveitarinnar í Bilbao á Spáni og starfaði þar óslitið í 40 ár. Freyr hefur leikið með hljómsveitum og kammersveitum víða um Evrópu og í Japan, bæði sem einleikari og fyrsti flautuleikari til dæmis með útvarpshljómsveitinni í Madrid og kammersveitinni Moskvu Virtuosi. Flautukonsert eftir Carl Nielsen heyrðist í fyrsta sinni í Bilbao 1986, þá í flutningi Freys, en átta árum áður hafði hann frumflutt konsertinn á Íslandi. Hörpu- og flautukonsert Mozarts er einnig vinsæll í flutningi Freys og hefur hann leikið hann með mjög virtum hörpuleikurum, þeim Marisa Robles, Maria Rosa Calvo-Manzano og Marion Desguace.
Freyr er eftirsóttur kennari og hefur kennt á fjölmörgum námskeiðum í Cantabríu og Andalusíu á Spáni og Trinity Laban tónlistarháskólann í Greenwich á Englandi. Sem prófessor við J.C. Arriaga tónlistarháskólann í Bilbao var Frey falið að setja saman kennsluskrá fyrir nám í þverflautuleik frá grunnnámi til útskriftar á háskólastigi. Í október 2020 fékk Freyr tækifæri til að flytja flautukonsert sem Jón Ásgeirsson hafði samið og tileinkað Frey 1999. Var þetta frumflutningur á verkinu utan Íslands með Sinfóníuhljómsveit Bilbao undir stjórn bandaríska stjórnandans, Erik Nielsen.
Hlíf Sigurjónsdóttir er fædd í Kaupmannahöfn en ólst upp í Reykjavík. Hún nam fiðluleik hjá Birni Ólafssyni konsertmeistara við Tónlistarskólann í Reykjavík og fór síðar til framhaldsnáms við Háskólana í Indiana og Toronto og Listaskólann í Banff í Klettafjöllum Kanada. Einnig nam hún hjá Gerald Beal fiðluleikara í New York borg. Á námsárum sínum kynntist hún og vann með mörgum merkustu tónlistarmönnum tuttugustu aldarinnar, þar á meðal William Primrose, Zoltan Szekely, György Sebök, Rucciero Ricci og Igor Oistrach. Hlíf hefur haldið fjölda einleikstónleika og leikið með sinfóníuhljómsveitum og kammersveitum víða um Evrópu, í Bandaríkjunum og Kanada.
Haustið 2014 kom geisladiskurinn DIALOGUS út hjá MSR Classics í Bandaríkjunum með einleiksverkum í hennar flutningi, sem samin hafa verið sérstaklega fyrir hana. Maria Nockin, gagnrýnandi Fanfare Magazine, tilnefndi þann disk CD of the year 2015. Síðar endurútgaf sama útgáfufyrirtæki tvöfaldan geisladisk, frá árinu 2008, þar sem hún lék allar sónötur og partítur fyrir einleiksfiðlu eftir Johann Sebastian Bach. Hafa báðir þessir diskar hlotið mikið lof gagnrýnenda.
Hlíf er annt um íslenska menningu og sögu klassískrar tónlistar á Íslandi og sá til dæmis um útgáfu geisladisks 2020 með fiðluleik Björns Ólafssonar úr fórum RÚV og hefur staðið fyrir tónleikum þar sem leiknar voru gamlar sögulegar upptökur, sem að hennar undirlagi voru yfirfærðar og hljóðhreinsaðar af þessu tilefni. Hlíf hefur verið umsjónarmaður Sumartónleika Listasafns Sigurjóns frá upphafi.
Martin Frewer fæddist í bænum Dartford í úthverfi Lundúna og hóf að læra á píanó sex ára gamall í Dorset og nokkru síðar einnig á fiðlu. Hann stundaði nám í Oxford University, þaðan sem hann útskrifaðist með gráðu í stærðfræði, en samtímis sótti hann fiðlutíma hjá Yfrah Neaman. Eftir útskrift frá Oxford hélt hann áfram fiðlunámi í Guildhall School of Music & Drama í London hjá Yfrah Neaman og lærði þá einnig á víólu hjá Nannie Jaimeson. Martin hefur sótt tíma og tekið þátt í opnum kennslustundum hjá Igor Ozim, Martin Loveday, Eric Gruenberg, Almita og Roland Vamos, Peter Guth, Ake Lundeberg og Lin Yaoti.
Árið 1983 var Martin ráðinn til starfa hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og hefur búið hér síðan og unnið jöfnum höndum að hönnun tölvuhugbúnaðar og fiðluleik. Hann starfar nú sem hugbúnaðarverkfræðingur hjá Marel og leikur með sem lausamaður hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann er mjög laginn útsetjari og er stofnandi og leiðtogi kammersveitarinnar Spiccato.
Þórdís Gerður Jónsdóttir er sellóleikari sem hefur þá sérstöðu að leika jöfnum höndum sígilda tónlist og jazz. Sígildan sellóleik nam hún við Listaháskóla Íslands á árunum 2014-2017 og í Det jyske Musikkonservatorium í Árósum, en þaðan lauk hún meistaragráðu sumarið 2021. Þórdís lauk burtfararprófi frá jazzdeild Tónlistarskóla FÍH vorið 2015 en í náminu lagði hún áherslu á spuna og tónsmíðar. Þórdís er stofnmeðlimur kammerhópsins Cauda Collective og kemur víða fram sem sellóleikari. Hún gaf út hljómplötuna Vistir með hennar eigin tónsmíðum og útsetningum vorið 2021.
Árið 2014 lauk Þórdís námi í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og viðbótardiplómu í lýðheilsuvísindum vorið 2019. Hún starfar á Bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins á milli tónleika.
|