Fréttatilkynning frá Listasafni Sigurjóns Ólafssonar 30.01.24
Ná í textaskjal
Saga saumuð á langan refil
Listasafni Sigurjóns Ólafssonar,
þriðjudaginn 6. febrúar 2024 kl. 20:00
Reynir Tómas Geirsson fyrrverandi prófessor og yfirlæknir
segir frá hinum fræga refli sem saumaður var í Kent
á Englandi á 11. öld og hefur lengst af verið geymdur í
bænum Bayeux í Normandí og kenndur við hann. Hann er eins konar
myndasaga um
orrustuna við Hastings í Englandi árið 1066, þegar
innrásarlið frá Normandí réðst inn í
England.
Í fyrirlestrinum er útskýrt mikilvægi Íslands í
varðveislu þessa handverks sem, ólíkt öðrum
listgreinum þess tíma, var stundað af konum.
Í Þjóðminjasafninu stendur nú sýning á
Íslenskum refilsaumklæðum
Með verkum handanna / Íslenskur refilsaumur fyrri alda
þar sem sjá má alla þá fimmtán íslenska refla sem
varðveist hafa frá gamalli tíð, elstu þeirra eru
frá því fyrir 1400 en hinn yngsti frá árinu 1677.
Reynir Tómas Geirsson hefur fjallað um Bayeux reflinum
áður, meðal annars í Listasafni Sigurjóns þann
3. október í fyrra, og ætíð við mikla hrifningu
áheyrenda og áhorfenda. Um framsögn hans í
Landnámssetrinu í Borgarnesi segir Silja
Aðalsteinsdóttir:
Á reflinum eru raktir í myndasögu með dálitlum texta þeir
dramatísku atburðir sem leiddu til þess að Vilhjálmur
bastarður, konungur yfir Normandí, réðst inn í
England þar sem hann þóttist réttborinn til ríkis.
Þar var fyrir á fleti Engilsaxinn Haraldur Guðinason, valinn
af vitringum ríkisins eftir lát Játvarðs konungs,
frænda Vilhjálms, og vildi ekki víkja. Svo ólánlega vildi til
fyrir Harald, sumarið 1066, að að honum sóttu tveir herir, annar
úr norðri undir forystu Haralds harðráða Noregskonungs og
Tósta jarls Guðinasonar, hinn úr suðri undir forystu
Vilhjálms. Norðmenn voru fyrr á ferðinni og þann her sigraði
Englandskóngur á norðurlandi. Þá frétti hann af
Vilhjálmi og herinn gekk hina löngu leið suður, var því
orðinn ansi lúinn þegar hann mætti Normönnum í
Hastings. Þar féll Haraldur Guðinason og Vilhjálmur
hirti krúnu hans. Síðan hefur hann heitið Vilhjálmur
sigurvegari.
Reynir Tómas er sögumaður af Guðs náð og gerði
þessa löngu sögu með sínum mörgu persónum og flóknu
fjölskyldutengslum skýra og afar skemmtilega. Ævintýralega
gaman var að fá að stúdera myndirnar á reflinum með
sínum ótalmörgu spennandi og jafnvel fyndnu smáatriðum sem
Reynir útskýrði á sinn fjörlega hátt. Það var líka
merkilegt að heyra hann lýsa tækninni við saumaskapinn, hinum
einstaka og endingargóða refilsaumi sem varðveittist á
Íslandi þótt hann týndist í öðrum
Evrópulöndum. Sérkennilegt er líka að sjá hvað
litirnir eru ennþá skærir og fallegir í þessu
nærri þúsund ára gamla handverki. Þá var ekki
síður fróðlegt að heyra Reyni lýsa ólíkri
hertækni Engilsaxa og Normanna sem sjá má á reflinum og
skipti sköpum í úrslitaorrustunni.
|