Fréttatilkynning frá Listasafni Sigurjóns Ólafssonar 30.01.24
Ná í textaskjal


Saga saumuð á langan refil
Listasafni Sigurjóns Ólafssonar, þriðjudaginn 6. febrúar 2024 kl. 20:00

Reynir Tómas Geirs­son fyrr­ver­andi próf­ess­or og yfir­lækn­ir segir frá hin­um fræga refli sem saum­að­ur var í Kent á Eng­landi á 11. öld og hef­ur lengst af verið geymd­ur í bæn­um Bay­eux í Norm­andí og kenndur við hann. Hann er eins konar mynda­saga um orr­ust­una við Hast­ings í Eng­landi árið 1066, þegar inn­rásar­lið frá Norm­andí réðst inn í Eng­land. Í fyrir­lestr­inum er út­skýrt mikil­vægi Ís­lands í varð­veislu þessa hand­verks sem, ólíkt öðr­um list­grein­um þess tíma, var stund­að af kon­um.

Í Þjóð­minja­safn­inu stend­ur nú sýn­ing­ á Íslenskum refil­saum­klæðum Með verk­um hand­anna / Íslensk­ur refil­saum­ur fyrri alda þar sem sjá má alla þá fimm­tán íslenska refla sem varð­veist hafa frá gam­alli tíð, elstu þeirra eru frá því fyrir 1400 en hinn yngsti frá árinu 1677.

Reynir Tómas Geirs­son hefur fjall­að um Bay­eux refl­in­um áður, með­al ann­ars í Lista­safni Sigur­jóns þann 3. októb­er í fyrra, og ætíð við mikla hrifn­ingu á­heyr­enda og á­horf­enda. Um fram­sögn hans í Land­náms­setr­inu í Borgar­nesi segir Silja Aðal­steins­dótt­ir:
„Á refl­in­um eru raktir í mynda­sögu með dálitl­um texta þeir drama­tísku at­burð­ir sem leiddu til þess að Vil­hjálm­ur bast­arð­ur, kon­ung­ur yfir Nor­mandí, réðst inn í Eng­land þar sem hann þótt­ist rétt­bor­inn til ríkis. Þar var fyrir á fleti Engil­sax­inn Har­ald­ur Guðina­son, val­inn af vitr­ing­um ríkis­ins eft­ir lát Ját­varðs kon­ungs, frænda Vil­hjálms, og vildi ekki víkja. Svo ólán­lega vildi til fyrir Har­ald, sum­arið 1066, að að hon­um sóttu tveir herir, ann­ar úr norðri und­ir for­ystu Har­alds harð­ráða Noregs­kon­ungs og Tósta jarls Guðina­son­ar, hinn úr suðri und­ir for­ystu Vil­hjálms. Norð­menn voru fyrr á ferð­inni og þann her sigraði Englands­kóng­ur á norður­landi. Þá frétti hann af Vil­hjálmi og her­inn gekk hina löngu leið suð­ur, var því orð­inn ansi lúinn þegar hann mætti Nor­mönn­um í Hast­ings. Þar féll Har­aldur Guðina­son og Vil­hjálm­ur hirti krúnu hans. Síðan hef­ur hann heitið Vil­hjálm­ur sigur­vegari.
    Reynir Tómas er sög­umaður af Guðs náð og gerði þessa löngu sögu með sínum mörgu pers­ón­um og flóknu fjöl­skyldu­tengsl­um skýra og afar skemmti­lega. Ævin­týra­lega gam­an var að fá að stúd­era mynd­irn­ar á refl­in­um með sínum ótal­mörgu spenn­andi og jafn­vel fyndnu smá­atrið­um sem Reynir út­skýrði á sinn fjör­lega hátt. Það var líka merki­legt að heyra hann lýsa tækn­inni við sauma­skap­inn, hin­um ein­staka og endingar­góða refil­saumi sem varð­veitt­ist á Ís­landi þótt hann týnd­ist í öðr­um Evrópu­lönd­um. Sér­kenni­legt er líka að sjá hvað lit­irn­ir eru enn­þá skær­ir og fal­leg­ir í þessu nærri þús­und ára gamla hand­verki. Þá var ekki síð­ur fróð­legt að heyra Reyni lýsa ólíkri her­tækni Engil­saxa og Nor­manna sem sjá má á refl­in­um og skipti sköp­um í úrslita­orrust­unni.“
Aðgangseyrir er 2000 krónur og greitt er við inn­ganginn. Tek­ið er við öll­um helstu greiðslu­kortum.
Hér má nálgast vetrardagskrá í Listasafn Sigurjóns
Listasafn Sigurjóns Ólafssonar • Laugarnestanga 70 • 105 Reykjavík • sími 553−2906 • LSO(at)LSO.is