Fréttatilkynning frá Listasafni Sigurjóns
Ólafssonar 22.09.23
Ná í textaskjal
Sönglög Árna Thorsteinssonar á næstu tónleikum
í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar 7. nóvember.
Gissur Páll Gissurarson og dr. Nína Margrét Grímsdóttir
Þriðjudaginn 7. nóvember næstkomandi kl. 20:00 munu þau
Gissur Páll Gissurarson, tenórsöngvari og Nína
Margrét Grímsdóttir, píanóleikari flytja
tónleikadagskrá helgaða sönglögum Árna
Thorsteinssonar tónskálds (1870 − 1962). Þar verða
fluttar einstakar perlur eins og Nótt, Friður á
jörðu, Fögur sem forðum og Dalvísur.
Jafnframt munu þau Gissur Páll og Nína Margrét
lesa valda kafla úr endurminningum Árna, Harpa minninganna,
sem Ingólfur Kristjánsson tók saman og gefin
var út árið 1955.
Þar segir að hinn margfróði
tónlistarunnandi Baldur Andrésson hafi skrifað um
sönglagasafn Árna:
Með útgáfu þessa safns 1907 Tólf einsöngslög með píanóundirleik stillti höfundurinn sér undireins í fremstu röð hins fámenna íslenzka tónskáldaflokks. Þessi lög lögðu grundvöllinn að frægð hans, og erum við Íslendingar fyrir löngu farnir að líta á þau sem klassísk lög ... Mér vitanlega mun það algert einsdæmi, að þegar tónskáld gefur út fyrsta sönglagasafn sitt, að
á skömmum tíma skuli tveir þriðju hlutar laganna rata veginn til þjóðarinnar, því að svo að segja hvert mannsbarn á landinu syngur þessi lög.
Árið 2018 var sönglagasafn Árna gefið út af útgáfunni Ísalögum undir ritstjórn Ólafs Vignis Albertssonar.
Gissur Páll Gissurarson tenórsöngvari hóf söngferil sinn 11 ára gamall í titilhlutverki Oliver Twist eftir Charles Dickens í Þjóðleikhúsinu. Gissur Páll hóf formlegt söngnám árið 1997 við Söngskólann í Reykjavík undir handleiðslu Magnúsar Jónssonar. Árið 2001 hóf Gissur Páll nám við Conservatorio G.B. Martini í Bologna hjá Wilma Vernocchi. Að loknu námi þar lærði Gissur Páll hjá Kristjáni Jóhannssyni.
Gissur Páll steig sín fyrstu skref sem einsöngvari á óperusviðinu árið 2003, og hefur síðan þá sungið fjölda hlutverka og tónleika. Hann hefur tekið þátt í söngvarakeppnum í tvígang og unnið til verðlauna í bæði skiptin. Hann hlaut þriðju verðlaun í alþjóðlegu söngvarakeppninni Flaviano Labņ árið 2005 og önnur verðlaun í alþjóðlegu söngvarakeppninni í Brescia árið 2006 en þar hlaut hann einnig sérstök verðlaun gagnrýnenda. Gissur Páll hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir hlutverk Rodolfo í La bohème hjá Íslensku óperunni árið 2012. Gissur Páll hefur komið víða fram, til dæmis í Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi, Ítalíu, Japan og Bandaríkjunum svo eitthvað sé nefnt, og hefur gert fjölmargar hljóðritanir, meðal annars með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Dr. Nína Margrét Grímsdóttir er í fremstu röð klassískra píanóleikara landsins. Hún lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, LGSM prófi frá Guildhall School of Music and Drama, meistaraprófi frá City University í London, Professional Studies Diploma frá Mannes College of Music í New York og doktorsprófi í píanóleik frá City University of New York. Hún hefur komið fram á Íslandi, víðar í Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada, Japan og Kína sem einleikari með hljómsveitum og í kammertónlist. Hún hefur hljóðritað fimm geisladiska fyrir Naxos, BIS, Acte Préalable og Skref sem allir hafa hlotið frábæra dóma í Gramophone Awards Issue, BBC Music Magazine, Glasgow Herald, Crescendo-Magazine, Xían Evening News og High Fidelity.
Nína Margrét er deildarstjóri framhaldsdeildar Tónskóla Sigursveins og kennir einnig píanóleik við Tónlistarskóla Kópavogs. Hún hefur enn fremur kennt við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskólann í Reykjavík og verið gestaprófessor við University of Agder og University of Karlstad á vegum Erasmus og Nordplus og hafa píanónemendur hennar unnið til fjölda verðlauna í innlendum og alþjóðlegum píanókeppnum.
|