21. október 2023. Fréttatilkynning frá
Listasafni Sigurjóns Ólafssonar
Texti eingöngu
Skreyting þagnarinnar
Á næstu tónleikum í Listasafni Sigurjóns
Ólafssonar, þann 31. október kl. 20:00, kynnir Sergio Coto-Blanco
lútuleikari lútutónlist frá 16. og 17. öld
og með honum verður sópransöngkonan Ásta Sigríður Arnardóttir.
Hin lágværa lúta var eitt vinsælasta
hljóðfærið í Evrópu og víðar í margar
aldir.
Eitt þekktasta tónskáld síns tíma var enski
lútuleikarinn John Dowland og verða flutt
einleiksverk og sönglög eftir hann. Einnig hljóma verk eftir Girolamo
Kapsberger og kostaríska söngvaskáldið
Walter Ferguson sem lést fyrr á árinu.
Sergio Coto-Blanco fæddist árið 1985 í San José í Kosta
Ríka. Hann nam lútu- og teorbuleik við listaháskólann
Hochschule für Künste Bremen í Þýskalandi og hefur
sérhæft sig í flutningi endurreisnar- og
barokktónlistar. Á endurreisnartímanum var
ákaflega algengt að vinsæl lög væru útsett fyrir
lútu og hljóðfæraleikarar voru sjálfir virkir
í að skreyta, móta og breyta til í tónlistinni og Sergio hefur
mikinn áhuga á að endurvekja þessa hefð og útsetur
stundum nýrri tónlist í gömlum stíl.
Sergio hefur starfað sem lútuleikari víða í
Evrópu og spilað undir hjá hópum eins og
Vokalakademie Berlin, Das Norddeutsche Barockorchester, Bach-Chor
München, Kammerphilharmonie Bremen og á
hátíðum eins og Händel-Festspiele Halle, Internationales
Bachfest Schaffhausen, Heidelberger Frühling og Bachwoche
Stuttgart. Hann hefur starfað sem lausráðinn
stundakennari við Listaháskóla Íslands og kennt
kontrapunkt við Universidad Nacional de Costa Rica.
Ásta Sigríður Arnardóttir er söng- og
tónlistarkona með rætur í íslenskri
þjóðlagatónlist. Ásta er meðlimur
fjölskylduhljómsveitarinnar Spilmenn
Ríkínís og með þeim hefur hún komið fram
á alls kyns tónlistarhátíðum og einnig
tekið upp og gefið út tvær hljómplötur.
Hún útskrifaðist með Bakkalár
gráðu í söng frá Listaháskóla
Íslands vorið 2023, með áherslu á
klassískan söng. Þar lærði hún undir
leiðsögn Hönnu Dóru Sturludóttur, Kristins
Sigmundssonar og Dísellu Lárusdóttur.
|