Fréttatilkynning frá Listasafni Sigurjóns
Ólafssonar 18.10.23
Ná í textaskjal
Afmælistónleikar og opið hús í Listasafni
Sigurjóns Ólafssonar
Þann 21. október eru liðin 35 ár frá því að Listasafn Sigurjóns
Ólafssonar var opnað í endurbyggðri vinnustofu og heimili listamannsins. Auk sýninga
á verkum Sigurjóns og annarra listamanna hefur tónlist skipað
veigamikinn hlut í starfi
safnsins og telst til að á þessum hálfa fjórða áratug hafi verið
haldnir tæplega 400 tónleikar á vegum þess auk annarra viðburða.
Af þessu tilefni verða haldnir tvennir tónleikar í
sal safnsins og einnig verður opið hús og kaffiveitingar
í safninu sunnudaginn 22. október.
Fyrri tónleikarnir eru á afmælisdaginn,
21. október klukkan 20:00 Þá flytja þau Hlíf
Sigurjónsdóttir fiðluleikari og dóttir listamannsins
og kanadíski píanóleikarinn Carl Philippe Gionet tvær mjög vel
þekktar fiðlusónötur, Fiðlusónötu
í B dúr eftir W.A. Mozart og þriðju
Fiðlusónötu Edvards Grieg.
Einnig leika þau hina glettnu Scherzo-Tarantella eftir Wieniawski.
Síðari tónleikarnir eru
þriðjudagskvöldið 24. október á sama tíma.
Þá leikur Carl Philippe Gionet einleiksverk fyrir píanó;
Franska svítu nr. 2 eftir J.S. Bach, Towers eftir Shelly Washington,
Remembering Schubert eftir Ann Southam og sjö smáverk eftir
sjálfan sig.
Í efri sal safnsins er stendur nú sýning Þuru −
Þuríðar Sigurðardóttur, myndlistar- og
söngkonu á málverkum hennar sem tengjast
æskustöðvum hennar, Laugarnesi, og öðrum
stöðum sem henni eru kærir. Í stóra sal safnsins
er sýning á verkum Sigurjóns Úr
ýmsum áttum.
Hlíf Sigurjónsdóttir er fædd í Kaupmannahöfn en ólst
upp í Reykjavík. Hún nam fiðluleik hjá Birni Ólafssyni
konsertmeistara við Tónlistarskólann í Reykjavík og
fór síðar til framhaldsnáms við Háskólana í
Indiana og Toronto og Listaskólann í Banff í Klettafjöllum
Kanada. Einnig nam hún hjá Gerald Beal fiðluleikara í New York borg.
Á námsárum sínum kynntist hún og vann með mörgum
merkustu tónlistarmönnum tuttugustu aldarinnar, þar á
meðal William Primrose, Zoltan Szekely, György Sebök, Rucciero Ricci
og Igor Oistrach. Hlíf hefur haldið fjölda einleikstónleika og
leikið með sinfóníuhljómsveitum og kammersveitum
víða um Evrópu, í Bandaríkjunum og Kanada.
Hlíf hefur gefið út nokkra geisladiska sem allir hafa
hlotið frábært lof gagnrýnenda. Haustið 2014 kom
geisladiskurinn DIALOGUS út hjá MSR Classics í
Bandaríkjunum
með einleiksverkum í hennar flutningi, sem samin hafa verið
sérstaklega fyrir hana. Maria Nockin, gagnrýnandi Fanfare Magazine,
tilnefndi þann disk CD of the year 2015. Síðar endurútgaf sama
útgáfufyrirtæki tvöfaldan geisladisk, frá árinu
2008, þar sem hún lék allar sónötur og partítur fyrir
einleiksfiðlu eftir J.S. Bach.
Carl Philippe Gionet píanóleikari er fjölhæfur listamaður
fæddur í Kanada, en franskur að langfeðratali. Hann lauk
doktorsprófi í píanóleik frá Háskólanum
í Montréal hjá Paul Stewart og hefur síðan tekið þátt
í fjölda námskeiða í píanóleik. Hann hefur einnig lagt
sérstaka áherslu á þjálfun í meðleik á
píanó, meðal annars í Austurríki og á Englandi.
Nú er hann eftirsóttur píanóleikari og kennari bæði
vestan hafs og austan. Árið 2013 stofnaði hann Musique sur mer en Acadie,
samtök sem helga sig menntun og dreifingu klassískrar tónlistar
frönskumælandi hluta Kanada. Síðan 2014 hefur hann verið aðal
píanókennari og söngþjálfari við Breno Italy
International Music Academy.
Myndlist Carls munu Íslendingar fá að kynnast að
ári, því næsta vetur verður haldin sýning í
Listasafni Sigurjóns á málverkum hans. Í listaverkum
Carls − málverkum og videoverkum − sem nær eingöngu
eru unnin í svart-hvítu, birtast andstæður
náttúrunnar, þau eru bæði innhverf
og íhugul og bjóða upp á óteljandi
túlkunarleiðir.
Fyrir fyrstu útgefnu bók sína, Icarus, var Carl
tilnefndur til verðlauna Prix Antonine-Maillet-Acadie Vie.
Geisladiskur hans Tu me voyais kom út
2022 með tólf útsetningum hans á acadískum
þjóðlögum í flutningi hans og
ópransöngkonunnar Christina Haldane.
|