11. október 2023. Fréttatilkynning frá Listasafni Sigurjóns Ólafssonar
Smellið hér til að skoð í vafra − Texti eingöngu

Hildigunnur Einarsdóttir mezzósópran og
Guðrún Dalía Salómonsdóttir píanóleikari
Tónleikar í Listasafni Sigur­jóns Ólafs­son­ar 17. okt­óber kl. 20:00


Guðrún Dalía og Hildigunnur
Þær Hildi­­gunn­­ur Einars­­dótt­ir mezzó­sópran­söng­kona og Guð­rún Dalía Salómons­dótt­ir píanó­leik­ari bjóða í franskt ferða­lag á tón­leik­um í Lista­safni Sigur­jóns, þriðju­dagskvöld­ið 17. október kl 20. Far­sælt sams­tarf þeirra Guð­rúnar og Hildi­gunn­ar spann­ar nú ára­tug, en þær hafa með­al ann­ars lagt áherslu á flutn­ing ís­lenskr­ar tón­list­ar, gjarn­an í nýrri kant­in­um. Á þess­um tón­leik­um kafa þær hins­vegar niður í hljóð­heima franskr­ar tón­list­ar. Þær munu flytja, allt frá dular­full­um síð­róman­tísk­um söng­lögum Dup­arcs og dans­andi grísk­um þjóðlaga­útsetn­ing­um Ravels, yfir í sindr­andi söng­lög eftir Satie og þaðan yfir í nýrri hljóð­heim Messiaen.

Hildi­­gunn­­ur Einars­­dótt­ir mezzó­sópran lauk burt­farar­prófi frá Söng­skól­an­um í Reykja­vík und­ir hand­leiðslu Ólaf­ar Kol­brún­ar Harðar­dótt­ur og Sign­ýj­ar Sæ­munds­dótt­ur og stund­aði fram­halds­nám í Þýska­landi og Hol­landi hjá Jan­et Will­iams og Jóni Þor­steins­syni. Einnig hefur hún lokið B.A. prófi í skap­andi tón­listar­miðl­un frá Lista­háskóla Ís­lands hvar hún sótti söng­tíma hjá Hlín Péturs­dótt­ur Behr­ens. Hildi­gunn­ur stjórn­ar Ár­kórn­um í Reykja­vík og Kvenna­kórn­um Kötlu ásamt Lilju Dögg Gunnars­­dótt­­ur. Hún kennir söng við Tón­skóla Sigur­sveins D. Krist­ins­son­ar og Söng­skól­ann Domus Vox. Hildi­gunn­ur hefur verið áber­andi í kirkju­tónlistar­sen­unni og sung­ið ein­söngs­hlutverk, með­al ann­ars Mess­ías og Judas Macca­beus eftir Händel, Matt­heusar­passíu, Jó­hannesar­passíu og Jóla­óra­torí­una eftir Bach og Guð­brands­messu eftir Hildi­gunni Rúnars­dótt­ur. Þá hefur hún einn­ig sung­ið ein­söng, meðal ann­ars með Sin­fóníu­hljóm­sveit Ís­lands, Barokk­sveit­inni Brák og Kammer­sveit Reykja­vík­ur og frum­flutt fjölda verka, til dæm­is eft­ir Hreið­ar Inga Þor­steins­son, Ingi­björgu Ýri Skarp­héðins­dótt­ur og Kol­bein Bjarna­son. Hildigunn­ur hlaut Ís­lensku tón­listar­verð­laun­in 2023 fyrir söng ársins í flokkn­um sígild og sam­tíma­tónlist.

Guðrún Dalía Salómons­dóttir píanóleikari er virk í ís­lensku tón­listar­lífi sem ein­leik­ari í ýms­um hljóð­færa­hóp­um og ekki síður sem með­leikari söngv­ara. Hún stund­aði píanó­nám við Tón­listar­skól­ann í Reykja­vík hjá Guð­ríði St. Sig­urðar­dótt­ur og út­skrif­að­ist frá Tón­listar­háskól­an­um í Stutt­gart og fór síð­an í fram­halds­nám til Parísar. Hún hefur hlotið fjölda styrkja og viður­kenn­inga, þar á með­al fyrstu verð­laun í píanó­keppni EPTA. Guð­rún hefur sótt fjölda nám­skeiða og einka­tíma í ljóða­undir­leik og leik­ið ein­leik með Ung­fón­íu og á tón­leik­um Sin­fóníu­hljóm­sveit­ar Ís­lands. Þá hefur hún leik­ið með ýms­um sam­spils­hóp­um, eins og Kúb­us, Kammer­sveit Reykja­víkur og Sin­fóníu­hljóm­sveit Ís­lands. Hún tekur reglu­lega þátt í tón­leika­röð­um, til að mynda Tíbrá í Salnum í Kópavogi, Sumar­tónleik­um Sigur­jóns­safns, Klass­ík í Vatns­mýr­inni, Óperu­dög­um, Tón­list fyrir alla, Tón­leika­röð Tón­listar­félags Akur­eyr­ar, Nor­ræn­um músík­dög­um og Myrk­um Músík­dög­um, en þar hefur hún frum­flutt fjölda verka eftir ís­lensk tón­skáld. Út hafa komið geisla­disk­ar með leik hennar með söng­lög­um Jór­unn­ar Viðar og Karls Ottós Runólfs­sonar. Guðrún Dalía er píanó­leik­ari við Tón­listar­skóla Garða­bæjar.

Aðgangseyrir er 2000 krónur og greitt er við inn­ganginn. Tek­ið er við öll­um helstu greiðslu­kortum.
Hér má nálgast vetrar og vordagskrá í Listasafn Sigurjóns
Listasafn Sigurjóns Ólafssonar • Laugarnestanga 70 • 105 Reykjavík • sími 553−2906 • LSO(at)LSO.is