Laugardagana 12., 19. og 26. ágúst 2023 er börnum á aldrinum
7 − 12 ára boðið með foreldrum sínum að
taka þátt í fjölbreyttu námskeiði, sem
myndlistarkennarinn Maribel Gonzalez Sigurjóns leiðir.
Þar fá börnin einstakt tækifæri til að skoða
listaverk eftir Sigurjón Ólafsson og skapa eigin verk út frá
þeim. Alþekkt er hve miklu máli skiptir að börn fá að
kynnast góðri list snemma á lífsleiðinni, því
það hefur áhrif á skynjun þeirra og þátttöku
í menningarlífi síðar á lífsleiðinni.
Markmiðið með námskeiðum þessum er að
gefa börnum tækifæri til að upplifa mikilfenglega
höggmyndalist í fallegu umhverfi og virkja
sköpunarþrá þeirra í samverustund með foreldri
eða öðrum fullorðnum úr fjölskyldu þeirra. Þau
munu meðal annars upplifa hvernig tvívíðu formi − til
dæmis mynd á blaði − er breytt í þrívíðan
skúlptúr.
Lykilorð verkefnisins, úr tvívídd í
þrívídd, hefur sjaldan haft meira gildi en í dag þegar börn
á öllum aldri nota netmiðla og tölvur stóran hluta dags,
þar sem allt efni er í tvívídd.
Hvert námskeið stendur frá kl. 10:30 til kl. 12:00 og er þátttaka
ókeypis, en nauðsynlegt er að skrá sig, annað hvort:
⇒ á netfangið: LSO@LSO.is
⇒ eða í síma 553 2906 milli kl. 13 og 17
Barnamenningarsjóður styrkir námskeiðið
|