Fréttatilkynning
Þrjú strengjatríó
í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar
þriðjudagskvöldið 9. maí 2023 kl. 20:00
|
Hlíf Sigurjónsdóttir fiðla,
Martin Frewer víóla og
Þórdís Gerður Jónsdóttir selló
flytja þrjú strengjatríó í Listasafni Sigurjóns
Ólafssonar þriðjudagskvöldið 9. maí kl. 20:00.
Þessi þrjú tríó eru afar ólík og frá
mismunandi tímum. Divertimento í Es Dúr eftir
Mozart er klassískt verk, samið 1788 seint á æviferli
tónskáldsins og Serenade eftir ungverska
tónskáldið Ernst von Dohnányi frá 1902 er í
rómantískum stíl. Alexander Liebermann samdi
nútímaverkið Seen from the Sky − Séð af himni
ofan 2021 undir áhrifum tékkneska tónskáldsins
Erwin Schulhoff og var það frumflutt af sömu flytjendum
á Schulhoff hátíð sem haldin var í Listasafni
Sigurjóns 24. júlí 2022.
[vakin er athygli á
nýlegu viðtali við
Alexander Liebermann hjá CBS Sunday Morning] |
Efnisskrá
| |
Ernst von Dohnányi
1877−1960 |
Serenade ópus 10
Marcia • Romanza • Scherzo • Tema con variazioni
• Rondo − allegro vivace |
Alexander Liebermann
f. 1989 |
Séð að himni ofan (2021)
|
W.A. Mozart
1756−1791 |
Divertimento í Es dúr, K 563
Allegro • Adagio • Menuetto, allegretto • Andante
• Menuetto, allegretto • Allegro |
|
|
|
Alexander Liebermann fæddist í Berlín og stundaði nám í
tónsmíðum og tónlistarfræðum við Hanns Eisler
háskólann, Juilliard tónlistarháskólann og
Manhattan School of Music þaðan sem hann lauk doktorsprófi í maí
síðastliðnum. Fyrir ritgerð sína sem fjallaði um Erwin Schulhoff hlaut hann
hin virtu Saul Braverman verðlaun.
Þótt ungur sé, er Alexander eftirsóttur fyrir tónsmíðar
sínar bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Verk hans eru
pólítísk og innblásin af náttúrunni. Hann hefur lagt sig eftir að
skrá nákvæmlega niður söng fugla og annarra dýra og notar hann
það víða í tónverkum sínum. Hefur hið þekkta tímarit
National Geogaphic fjallað um það á síðum sínum.
Yngstu tónverk Alexanders eru meðal annars verk sem Deutsche Oper Berlin pantaði
hjá honum og fjallar um loftslagsbreytingar, og strengjatríó sem Staatskapelle
Dresden fékk hann til að semja og er innblásið af fuglasöng. Einnig hefur hann samið
tónlist við heimildarmyndina Frozen Corpses Golden Treasures. Þá er nýkomin
út hjá bandaríska forlaginu Just A Theory Press bók hans Birdsong: A Musical
Field Guide.
Alexander Liebermann býr nú í New York borg, þar sem hann kennir við
Juilliard tónlistarháskólann.
|
|
Hlíf Sigurjónsdóttir
er fædd í Kaupmannahöfn en ólst upp í Reykjavík.
Hún nam fiðluleik hjá
Birni Ólafssyni
konsertmeistara við Tónlistarskólann í Reykjavík og fór
síðar til framhaldsnáms við Háskólana í Indiana og Toronto
og Listaskólann í Banff í Klettafjöllum Kanada. Einnig nam
hún hjá Gerald Beal fiðluleikara í New York borg. Á námsárum
sínum kynntist hún og vann með mörgum merkustu
tónlistarmönnum tuttugustu aldarinnar, þar á meðal William
Primrose, Zoltan Szekely, György Sebök, Rucciero Ricci og Igor Oistrach. Hlíf
hefur haldið fjölda einleikstónleika og leikið með
sinfóníuhljómsveitum og kammersveitum víða um Evrópu,
í Bandaríkjunum og Kanada.
Haustið 2014 kom geisladiskurinn DIALOGUS út hjá MSR Classics í
Bandaríkjunum með einleiksverkum í hennar flutningi, sem samin hafa
verið sérstaklega fyrir hana. Maria Nockin, gagnrýnandi Fanfare Magazine,
tilnefndi þann disk CD of the year 2015. Síðar endurútgaf sama
útgáfufyrirtæki tvöfaldan geisladisk, frá árinu 2008,
þar sem hún lék allar sónötur og partítur fyrir
einleiksfiðlu eftir Johann Sebastian Bach. Hafa báðir þessir diskar hlotið
mikið lof gagnrýnenda.
Hlíf er annt um íslenska menningu og sögu klassískrar
tónlistar á Íslandi og sá til dæmis um útgáfu
geisladisks 2020 með fiðluleik Björns Ólafssonar úr fórum
RÚV. Í maí í ár stóð hún fyrir þrennum
tónleikum þar sem leiknar voru gamlar sögulegar upptökur, sem að
hennar undirlagi voru yfirfærðar og hljóðhreinsaðar af þessu
tilefni. Hlíf hefur verið umsjónarmaður Sumartónleika
Listasafns Sigurjóns frá upphafi.
|
|
Martin Frewer
fæddist í bænum Dartford í úthverfi Lundúna
og hóf að læra á píanó sex ára gamall í Dorset og nokkru síðar
einnig á fiðlu. Hann stundaði nám í Oxford University, þaðan sem
hann útskrifaðist með gráðu í stærðfræði, en
samtímis sótti hann fiðlutíma hjá Yfrah Neaman. Eftir útskrift
frá Oxford hélt hann áfram fiðlunámi í Guildhall School of Music &
Drama í London hjá Yfrah Neaman og lærði þá einnig á
víólu hjá Nannie Jaimeson. Martin hefur sótt tíma og tekið þátt
í opnum kennslustundum hjá Igor Ozim, Martin Loveday, Eric Gruenberg, Almita og Roland Vamos,
Peter Guth, Ake Lundeberg og Lin Yaoti.
Árið 1983 var Martin ráðinn til starfa hjá
Sinfóníuhljómsveit Íslands og hefur búið hér
síðan og unnið jöfnum höndum að hönnun
tölvuhugbúnaðar og fiðluleik. Hann starfar nú sem
hugbúnaðarverkfræðingur hjá Marel og leikur með sem
lausamaður hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann er
mjög laginn útsetjari og er stofnandi og leiðtogi kammersveitarinnar Spiccato.
|
|
Þórdís Gerður Jónsdóttir er sellóleikari sem hefur þá
sérstöðu að leika jöfnum höndum sígilda tónlist og jazz.
Sígildan sellóleik nam hún við Listaháskóla Íslands á
árunum 2014-2017 og í Det jyske Musikkonservatorium í Árósum,
en þaðan lauk hún meistaragráðu sumarið 2021. Þórdís
lauk burtfararprófi frá jazzdeild Tónlistarskóla FÍH vorið 2015
en í náminu lagði hún áherslu á spuna og tónsmíðar.
Þórdís er stofnmeðlimur kammerhópsins Cauda Collective og kemur
víða fram sem sellóleikari. Hún gaf út hljómplötuna Vistir með
hennar eigin tónsmíðum og útsetningum vorið 2021.
Árið 2014 lauk Þórdís námi í
hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og
viðbótardiplómu í lýðheilsuvísindum vorið
2019. Hún starfar á Bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins
á milli tónleika. |
|