23. mars 2023. Fréttatilkynning frá Listasafni Sigurjóns Ólafssonar
Hlíf Sigurjónsdóttir fiðluleikari og
Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari
flytja þrjár af Mannheim sónötum
Mozarts á næstu
tónleikum í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar
þann 28. mars klukkan 20:00.
|
Hlíf og Nína Margrét
|
Síðla árs 1777 kvaddi Mozart Salzburg með litlum söknuði
og hélt á vit nýrra ævintýra og einnig að leita sér
að fastri stöðu. Ferðaðist hann til Augsburg, Mannheim,
Parísar og Munchen. Hljómsveitin í Mannheim var
talin ein hin besta í Evrópu á þeim tíma og dvaldist hann
þar um skeið og kynntist meðlimum hennar. Hann hafði vonir
um stöðu þar, sem þó brugðust. Meðan hann var þar kynnti
hann sér sex fiðlusónötur eftir Joseph Schuster og varð
svo hrifinn af formi þeirra að hann einsetti sér að skrifa
sjálfur sex slíkar. Þær urðu sjö − reyndar samdi hann
tvær þeirra eftir að hann var kominn til Parísar árið
1778 − og eru þær yfirleitt nefndar einu nafni Mannheim
sónöturnar.
Þetta var tími mikilla tilfinninga því í
Mannheim kynntist hann fyrstu ást sinni, Aloysia Weber (síðar
kvæntist hann yngri systur hennar, Constanze) og í París lést
móðir hans sem fylgt hafði honum á ferðum hans.
Sónötu í e moll (K304) samdi hann eftir lát móður
sinnar.
Þriðjudagskvöldið 28. mars leika þær Hlíf
Sigurjónsdóttir fiðluleikari og Nína
Margrét Grímsdóttir þrjár af þessum
sónötum. Eru það G dúr sónatan (K 301),
e moll sónatan (K 304) og A dúr sónatan (K 305).
|
Hlíf Sigurjónsdóttir er fædd í Kaupmannahöfn
en ólst upp í Reykjavík. Hún nam fiðluleik hjá
Birni Ólafssyni konsertmeistara við
Tónlistarskólann í Reykjavík og fór
síðar til framhaldsnáms við
Háskólana í Indiana og Toronto og Listaskólann
í Banff. Einnig nam hún hjá Gerald Beal fiðluleikara í
New York borg. Á námsárum sínum kynntist hún
og vann með mörgum merkustu tónlistarmönnum
tuttugustu aldarinnar, þar á meðal
William Primrose, Zoltan Szekely, György Sebök, Rucciero Ricci og
Igor Oistrach.
Hlíf hefur haldið fjölda einleikstónleika
og leikið með sinfóníuhljómsveitum
og kammersveitum víða um Evrópu, í
Bandaríkjunum og Kanada. Diskur hennar DIALOGUS sem kom út
hjá MSR Classics í Bandaríkjunum hlaut
tilnefninguna CD of the year 2015 hjá Fanfare Magazine og það
ár endurútgaf sama útgáfufyrirtæki
tvöfaldan geisladisk, frá árinu 2008, þar sem
hún lék allar sónötur og partítur fyrir
einleiksfiðlu eftir Johann Sebastian Bach. Hafa þessir diskar
hlotið mikið lof gagnrýnenda.
Nína Margrét Grímsdóttir er í
fremstu röð klassískra píanóleikara landsins.
Hún lauk einleikaraprófi frá
Tónlistarskólanum í Reykjavík, LGSM
prófi frá Guildhall School of Music and Drama, meistaraprófi
fráCity University í London, Professional Studies
Diploma frá Mannes College of Music í New York og doktorsprófi í
píanóleik frá City University of New York.
Nína Margrét hefur komið fram á Íslandi og
víðar í Evrópu, Bandaríkjunum,
Kanada, Japan og Kína, sem einleikari með
hljómsveitum og í kammertónlist. Hún hefur
hljóðritað fimm geisladiska fyrir Naxos, BIS, Acte Pre'alable
og Skref sem allir hafa hlotið frábæra dóma í
Gramophone Awards Issue, BBC Music Magazine, Glasgow Herald,
Crescendo-Magazine, Xían Evening News og High Fidelity.
|
|
|