Fréttatilkynning um sýningu í Listasafni Sigurjóns
Ábyrgðarmaður : Birgitta Spur sími 553 2906
Hraunblóm - Lavaens blå blomst
Íslandsmyndir frá árinu 1948 eftir dönsku COBRA málarana Carl-Henning Pedersen og Else Alfelt ásamt samtímaverkum eftir Svavar Guðnason og Sigurjón Ólafsson á sýningu í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar.
Vorið 1948 komu hjónin Carl-Henning Pedersen og Else Alfelt til Íslands í boði vinar þeirra Svavars Guðnasonar. Meðferðis höfðu þau dönsku framúrstefnu sýninguna Høstudstillingen frá árinu áður en Svavar var félagi í þeim hópi. Sýningin sem áður hafði verið í Ósló og Gautaborg var sett upp í Listamannaskálanum við Austurvöll í maí og vakti mikla athygli og átti eftir að hafa þýðingu fyrir íslenska myndlistarmenn. Að sýningu lokinni ferðuðust þau hjónin um landið og máluðu myndir undir áhrifum íslenskrar náttúru, Carl-Henning með olíukrít og Else Alfelt málaði tærar vatnslitamyndir sem bera af meðal verka hennar. Danskt heiti sýningarinnar er sótt í nafn einnar myndar hennar Lavaens blaa Blomst.
Í bók sem gefin var út í tilefni yfirlitssýningar á verkum Carl-Hennings Pedersen í Danska ríkislistasafninu árið 2003 bendir listfræðingurinn Mikael Wivel meðal annars á þá miklu þýðingu sem Íslandsdvölin hafði fyrir listferil Carl-Hennings, því á Íslandi upplifði hann stórbrotna náttúru sem hann túlkaði í litlum olíukrítarmyndum sínum og náði fram áhrifum "sem enginn hafði látið sig dreyma um. Hann teiknaði í gríð og erg, og af svo miklum ákafa að litirnir næstum bráðnuðu."
Á sýningunni Hraunblóm í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar eru 50 verk eftir Carl-Henning og Else Alfelt, þar á meðal eru 10 tússmyndir sem Carl-Henning teiknaði fyrir tímaritið Helhesten, sem var gefið út á árunum 1941 – 1944 af listamönnum sem tengdust fyrrgreindri Haustsýningu. Eftir Svavar Guðnason verða 15 vatnslitamyndir og 5 skúlptúrar eftir Sigurjón Ólafsson, en bæði Svavar og Sigurjón höfðu dvalið í Danmörku á þriðja og fjórða áratugnum við góðan orðstír og verið í hópi þeirra listamanna sem leituðust við að tjá hið upprunalega og frumstæða í list sinni.
Gefin hefur verið út myndskreytt sýningarskrá þar sem danski safnstjórinn Hanne Lundgren fjallar um Else Alfelt, Æsa Sigurjónsdóttir kynnir Carl-Henning Pedersen og í grein sem Aðalsteinn Ingólfsson nefnir "Þegar Helhesturinn kom til Íslands" tengir hann sýningu Hausthópsins í Listamannaskálanum 1948 við það sem þá var í gerjun meðal íslenskra myndlistarmanna. Aðalsteinn bendir einnig á að á sama tíma og Danir stofnuðu Cobra hópinn með félögum sínum í Brussel og Amsterdam haustið 1948 voru listamenn að fást við svipaða hluti hér á Íslandi. Með þessari sýningu og greinum í sýningarskrá er því verið að draga fram áður óþekktan kafla úr því sem mætta kalla "hina sameiginlegu dansk-íslensku listasögu"
Verk á sýningunni eru í eigu Listasafns Carl-Hennings Pedersen og Else Alfelt í Herning í Danmörku, Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og Listasafns Sigurjóns Ólafssonar. Í kaffistofu safnsins eru sýndar myndir eftir Carl-Henning og Else Alfelt sem hafa verið í einkaeigu á Íslandi síðan 1948. Sýningin verður í Listasafninu á Akureyri í upphafi næsta árs, þaðan fer hún til safnsins í Herning og henni lýkur í menningarhúsinu Norðurbryggju í Kaupmannahöfn í árslok 2006.
Norræni menningarsjóðurinn, Fondet for Dansk-Islandsk Samarbejde og Listráðið í Danmörku hafa veitt styrki til rannsókna og útgáfu sýningarskrár.
Við opnunina á laugardaginn 17. September kl. 15.00 flytur danski sendiherrann á Íslandi Lasse Reimann ávarp og menntamálaráðherra Katrín Þorgerður Gunnarsdóttir opnar sýninguna.