Fréttatilkynning frá Listasafni Sigurjóns
Ólafssonar 29.10.2024
Ákall um friðlýsingu − undirskriftasöfnun!
Fullt hús var á Laugarnesvöku í Listasafni
Sigurjóns Ólafssonar sunnudaginn
3. nóvember, en þar boðuðu
Laugarnesvinir
til samkomu til að styðja kröfu um friðlýsingu
Laugarnessins.
Undirskriftalistar lágu frammi þar sem skorað
er á ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála
að friðlýsa Laugarnes sem búsetu- og menningarlandslag
... til að vernda söguna, sem lesa má í manngerðu umhverfi
svæðisins, og tengsl við liðna tíma.
Hægt er að skrifa
undir, eða fá lista til undirskriftar, í Listasafni
Sigurjóns Ólafssonar. Samhljóða
undirskriftasöfnun er á netinu, á
island.is
Dagskráin hófst með því að Hlíf
Sigurjónsdóttir bauð gesti velkomna og Guja
Sandholt söngkona flutti tvö lög við píanóundirleik
Matthildar önnu Gísladóttur og var það framlag og
stuðningur Óperudaga í Reykjavík við
Laugarnesvökuna. Eftir stutta tölu Hlífar um hvernig
hugmyndir vökunnar urðu til rakti Þura
Sigurðardóttir myndlista- og söngkona sögu
Laugarnessins og mikilvægi þess í sögu landsins.
Steinunn Jóhannesdóttir leikkona fjallaði um
siðferði þeirra aðferða sem notaðar voru til að
hefja uppfyllingu lands norðan á Laugarnesinu og hvernig
svipuðum aðferðum er beitt til að fá að byggja
þar háhýsi. Fjöldi fundargesta bauð sig fram til að
sitja í stýrihóp til að fylgja eftir áskorun um
friðlýsingu.
Yst á Laugarnesi, þeim litla skika sem eftir er
óbyggður af hinu forna stórbýli að Laugarnesi,
er eina óspillta fjaran á norðurströnd
Reykjavíkurborgar, þar eru svæði með
fjölbreyttan náttúrulegan gróður,
þar er griðland fugla og þar eru miklar menjar um búsetu
allt frá landnámi. Reynt hefur verið að seilast inn á
þennan reit til að byggja á honum, eða leggja yfir hann vegi, en
velunnurum hefur hingað til tekist að afstýra
því. Nú er verið að þrengja að Laugarnesi úr
norðri með landfyllingum og áætlunum um að byggja
þar háhýsi. |
|