Fréttatilkynning frá Listasafni Sigurjóns
Ólafssonar 17.09.24
Laugarneshughrif
Sýning á grafítverkum Carls Philippe Gionet
í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar
28. september til 1. desember 2024
Carl Philippe Gionet er mörgum Íslendingum að góðu kunnur sem píanóleikari, en færri þekkja þá hlið af honum sem hér birtist. Hann er eftirsóttur einleikari og meðleikari, en ekki síður sem leiðbeinandi og kennari víða um Kanada og Evrópu. Carl lauk doktorsprófi í píanóleik við Université de Montréal undir leiðsögn Paul Stewart og hefur hlotið sérhæfða þjálfun í meðleik í Austurríki og Englandi. Hann hefur lagt sig sérstaklega eftir menningararfleifð franskra innflytjenda í Kanada á 17. og 18. öld sem kennd er við Akadia og árið 2013 stofnaði hann Musique sur mer en Acadie sem helgar sig miðlun klassískrar tónlistar meðal franska minnihlutans í Kanada. Síðan 2014 hefur hann verið leiðbeinandi við Breno Italy International Music Academy og Centre for Opera Studies and Appreciation í Kanada. Á nýjustu plötu sinni Tu me voyais, sem Leaf Music gaf út árið 2022, flytur hann ásamt sópransöngkonunni Christina Raphaėlle Haldane, tólf akadísk þjóðlög sem hann útsetti fyrir söngrödd og píanó. Útsetningar Carls eru fáanlegar hjá Éditions Doberman-Yppan útgáfunni.
Sem myndlistarmaður gerir Carl fyrst og fremst málverk og myndbandsinnsetningar og nær eingöngu í svarthvítu. Innblásin af andstæðum náttúrunnar eru verk hans bæði innhverf og íhugul, hann leyfir verkunum að tjá sig sjálf og bjóða þannig upp á ótal túlkunarleiðir. Kanadíska galleríið Galerie ART-ARTISTE kynnir verk hans og hafa þau verið á mörgum einkasýningum víðs vegar um austurströnd Kanada og nú í júlí í ár hélt Carl sína fyrstu einkasýningu í Evrópu, í Cantieri Culturali í Val Camonica á Ítalíu.
Rithöfundurinn Carl Philippe Gionet var tilnefndur til Prix Antonine-Maillet − Acadie Vie verðlaunanna fyrir bókina Icare (Icarus), sem Éditions Prize de parole gaf út árið 2021. Í mars síðastliðinn kom út þýðing hans á Mary Jane Mosquito eftir cree indíánann Tomson Highway.
LISTRÆN NÁLGUN
Carli eru myndrænar sýnir nauðsynlegar við tónlistarflutning, þær þjóna sem leiðarvísir og geta aðstoðað við úrlausn tæknilegra vandamála. Þegar hann málar er það hins vegar alger nauðsyn að vinna í þögn. Hafi myndlist áhrif á tónlistina gildir hið gagnstæða alls ekki. Þessir tveir heimar lifa samhliða en ekki alltaf í sátt hvor við annan.
Helst vill Carl mála á tré, þá getur hann pressað, og jafnvel grafið niður í flötinn sem hann vinnur í með því tóli sem hann notar hverju sinni, en það geta verið penslar, gamlir sem nýir, ýmsar spýtur, skrúfjárn eða hvað sem nota má til að bera á flötinn. Jafnvel málningin sem hann notar, eða olían, eru afgangar úr gömlum dósum. Hann gerir tilraunir með efnahvörf sem stundum slysast til að móta kjarna verksins. Carl nýtur þess að geta túlkað hráar tilfinningar sínar í algerri kyrrð og án fyrirfram gefins ásetnings.Túlkunarmöguleikar eru óþrjótandi, ljósið sprettur fram úr myrkrinu, verkið er opið fyrir tilfinningum og það er undir okkur komið að nálgast það án fyrirfram gefinna hugmynda.
Á sýningunni Laugarneshughrif (Imprints of Laugarnes) leikur Carl sér að samspili náttúrunnar og listrænnar arfleifðar Sigurjóns Ólafssonar. Megininnblástur verkanna er Laugarnesið sjálft með sína mögnuðu sögu og úfið landslag með klöppum og klettum þar sem finna má einstæða áferð og mynstur.
Verkin á þessari sýningu eru nær eingöngu unnin með grafít á pappír. Ólíkt stórum málverkum krefst vinna með grafít annars konar vinnubragða og hugsunarháttar − natni og skefjalausrar nákvæmni. Viðkvæmt yfirborð pappírsins minnir á lífrænt eðli viðarins sem hann er unninn úr. Grafítið er sjálft unnið úr steinum, sem tengir teikningarnar við sögu landsins. Sérhver blettur á pappírnum ber kjarna þessara náttúruefna, sem tengir hið skammvinna við óendanleikann í sérhverri pensilstroku.
|