Fréttatilkynning frá Listasafni Sigurjóns
Ólafssonar 10.05.24
Smellið hér til að skoða í vafra
Þræðir og þrívíð form
Skúlptúrar eftir Anni Bloch og Sigurjón Ólafsson
Kirsten Rosenvold Geelan, sendiherra Danmerkur á Íslandi,
opnar sumarsýningu Listasafns Sigurjóns Ólafssonar
í safninu að Laugarnesi föstudaginn 31. maí kl. 16.
Á sýningunni sem nefnist Þræðir og
þrívíð form eru þrívíð
textílverk dönsku listakonunnar Anni Bloch og valdir
skúlptúrar Sigurjóns Ólafssonar.
Verk þessara listamanna eru ólík að útliti,
en Anni og Sigurjón eiga það sameiginlegt að hafa skapað
óhefðbundin listaverk með gömlu hefðbundnu handverki.
Bæði hafa þau unnið í náttúruefni og nýtt
sér út í æsar þá möguleika sem efnið leyfði.
Verk Anni eru unnin með nál og þræði í silki, hamp eða
jafnvel kopar. Verk Sigurjóns á sýningunni eru
tálguð í tré, og oft með ýmsum viðbótum,
brösuð málmverk eða mótuð í leir.
Anni Bloch er menntuð
frá Håndarbejdets Fremmes
Seminarium og er af síðustu kynslóð þeirra sem
lærði útsaum. Hún stundar iðn sína til
listsköpunar en jafnframt því hefur hún
rannsakað útsaum liðinna alda og því
sem útsaumi tengist. Niðurstöður rannsóknanna
hefur hún birt í riti sínu Dåbstøj −
Kristenklæder, Historien om dåben, barnesynet og
tekstilerne og í greinum í fagtímaritum.
Hún hefur haldið sýningar á verkum sínum
í Danmörku, Svíþjóð og á Íslandi.
Sunnudaginn 2. júní klukkan 14 leiðir
listakonan gesti um sýninguna.
Sigurjón Ólafsson
(1908−1982) bjó í Danmörku
á árunum 1928−45 við nám og störf. Að loknu seinna
stríði flutti hann heim og settist að á Laugarnesi, þar
sem hann vann að list sinni til æviloka.
Heimili hans og vinnustofu var síðar breytt og þar
er nú safn listaverka hans. Sigurjón var meðal
brautryðjenda abstraktlistar á Íslandi auk þess
að vera talinn einn helsti portrettlistamaður sinnar
samtíðar.
Fondet for Dansk-Islandsk Samarbejde og Dansk−Islandsk Fond hafa
styrkt sýninguna.
Sýningunni
Þræðir og þrívíð form lýkur
15. september 2024. Yfir sumarið er safnið opið alla daga
vikunnar nema mánudaga milli klukkan 13 og 17. Aðgangseyrir
er 1000 krónur og tekið við öllum helstu greiðslukortum.
Sumartónleikar safnsins hefjast 2. júlí og standa til
13. ágúst. Lista yfir
sumartónleikana má nálgast hér.
Kaffistofa safnsins er opin á safntíma og eftir
tónleika á vegum safnsins. Unnt er að ganga beint í
kaffistofuna án þess að greiða aðgang að safninu.
Listasafn Sigurjóns Ólafssonar
• Laugarnestanga 70 • 105 Reykjavík • sími 553−2906 •
LSO(at)LSO.is |
|