Listasafn Sigurjóns Ólafssonar | Rústir / Ruins Helga Pálína Brynjólfsdóttir |
Ný sýning í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar opnar á Vetrarhátíð í Reykjavík
ÚT Á SKÝJATEPPIÐ - DRAUMSÆI OG NÁTTÚRUFAR
Stefnumót þriggja listgreina
Sýningin er hugsuð sem samræður milli þriggja ólíkra efnisforma og þar verða tré- og koparverk Sigurjóns Ólafssonar, textílar eftir Helgu Pálínu Brynjólfsdóttur og ljóð Berglindar Gunnarsdóttur. Verkin lýsa náttúrufari draums og jarðar; í ljóðunum er brugðið upp myndum af nokkrum stöðum í Reykjavík, meðal annars af Laugarnesinu og Helga Pálína yfirfærir á textílverk sín meðal annars form af bæjarrústum í Engey, sem aðeins eru sýnileg úr lofti. Hún þrykkir á örþynnt silki með nýstárlegri aðferð sem breytir áferð trefjanna þannig að þær spegla ljósið á annan hátt. Verk Sigurjóns veita hinum listformunum aukið þyngdarafl, en loftkennt eðli ljóðsins ýtir undir draumsæi viðarmyndanna og textílverkanna.
Listakonurnar tvær eru báðar fæddar árið 1953. Berglind Gunnarsdóttir ljóðskáld lagði stund á spænsku og málvísindi í Madrid og Reykjavík og hefur fengist við ritstörf, svo sem ljóðagerð, þýðingar, þáttagerð fyrir útvarp og hefur skrifað greinar um bókmenntir. Hún hefur gefið út ljóðabækur, eina skáldsögu og ritað ævisögu Sveinbjörns Beinteinssonar allsherjagoða.
Helga Pálína Brynjólfsdóttir textílhönnuður býr og starfar í Reykjavík. Hún útskrifaðist úr textíldeild Listiðnaðarskólans í Helsinki (UIAH) árið 1988, hún hefur kennt textílþrykk og hönnun við Myndlista- og handiðaskóla Íslands og Listaháskóla Íslands og tekið þátt í hönnunar- og textílsýningum hér heima og erlendis.
Sýningin Út á skýjateppið verður formlega opnuð laugardaginn 25. febrúar kl. 15, en í tilefni af Safnanótt og Vetrarhátíð í Reykjavík verður safnið opið fyrir gesti og gangandi föstudagskvöld 24. febrúar milli klukkan 19 og 24. Nemendur úr Tónlistarskólanum í Reykjavík flytja tónlist klukkan 20 og Berglind mun lesa ljóðin sín kl. 21.